Hækkunin verst fyrir landsbyggðina

Erlendir ferðamenn á Þingvöllum.
Erlendir ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Okkur finnst ráðamenn þjóðarinnar ekki sýna ferðaþjónustunni nægan skilning þar sem verið er að heimfæra stöðuna á höfuðborgarsvæðinu og suðvesturhorninu á allt landið, hvað varðar fjölda ferðamanna og dreifingu þeirra yfir árið,“ segir Friðrik Árnason, eigandi Hótel Bláfells á Breiðdalsvík, um þau áform ríkisstjórnarinnar að hækka virðisaukaskatt á íslenska ferðaþjónustu.

Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi funduðu með Benedikt Jóhannessyni fjármálaráðherra í síðustu viku þar sem þeir mótmæltu þessum áformum og lýstu yfir óánægju sinni. Fréttvefurinn Austurfrétt á Austurlandi greindi fyrst frá málinu. „Þetta var góður og málefnalegur fundur en okkur fannst á Benedikt að það væri í raun búið að taka þessa ákvörðun og að okkar álit skipti ekki máli,“ segir Friðrik.

Ísland vart samanburðarhæft

Ef af hækkuninni verður segir Friðrik það eiga eftir að vera mikið högg fyrir ferðaþjónustuaðila á Austurlandi og víðar á landsbyggðinni. „Við erum nú þegar farin að verða vör við afbókanir vegna styrkingar krónunnar. Ísland er orðinn dýr áfangastaður sem gerir það að verkum að fólk styttir ferðir sínar til landsins en það kemur fyrst niður á þeim stöðum sem eru lengst frá Keflavíkurflugvelli og höfuðborgarsvæðinu,“ segir Friðrik. Í ljósi aðstæðna sé þessi fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts því kolröng og vanhugsuð.

Friðrik segir að með þessum breytingum verði Ísland vart samanburðarhæft við aðrar þjóðir þar sem gisting og veitingar séu í töluvert lægra skattþrepi í nágrannalöndunum. „Við erum í raun ekki að fara fram á neitt annað en að við séum samkeppnishæf við önnur lönd.“

Mega ekki við fækkun

„Við megum ekki við því að það sé verið að tempra ferðamannastrauminn til landsins. Hér á landsbyggðinni er búið að fjárfesta fyrir marga tugi og hundruð milljóna í ferðaþjónustu en ferðamannastraumurinn hefur ekki náð til okkar nema að mjög litlu leyti,“ segir Friðrik.

Hann telur að nær væri að skattleggja valkvæða afþreyingu en sú tillaga var borin upp á fundinum við fjármálaráðherra. „Það fyrsta sem fólk gerir þegar það fer til útlanda er að skoða hvað flugið kostar og hótelið, ekki hvað skemmtiferðirnar eða skoðunarferðirnar kosta, því það er valkvæð afþreying.“

Þá segir Friðrik umræðuna á Íslandi oft óvægna í garð ferðaþjónustuaðila og að gera verði greinarmun á aðstæðum á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu. „Fyrirtæki á landssvæðinu eru völt og við megum ekki við þessum missi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert