Hugmyndaleit vegna Skerjafjarðar

Land ríkisins í Skerjafirði sem losnaði við lokun neyðarbrautarinnar er …
Land ríkisins í Skerjafirði sem losnaði við lokun neyðarbrautarinnar er um 11 hektarar að stærð. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Vegna nýs 800 íbúða hverfis sem er fyrirhugað í Skerjafirði ætlar Reykjavíkurborg að efna til útboðs á mismunandi deiluskipulagsreitum hverfisins.

Hugmyndaleit er í gangi þar sem leitað er til valdra arkitektastofa til þess að fá hugmynd um hvernig hverfið gæti liðið út. Einnig verður leitað eftir hugmyndum hjá íbúum hverfisins og hagsmunaaðilum. Í framhaldinu verða útbúnir þróunarreitir sem verða boðnir út. Líklegast mun ein arkitektastofa því næst verða valin af Reykjavíkurborg til að búa til rammaskipulag.

Landið er um 11 hektarar að stærð en það losnaði við lokun neyðarbrautarinnar svokölluðu á Reykjavíkurflugvelli. 

Öðruvísi nálgun

„Þetta er aðeins öðruvísi nálgun en hefur oft verið farin,“ segir Óli Örn Eiríksson, deildarstjóri atvinnuþróunar hjá Reykjavíkurborg. „Stóru línurnar verða dregnar í einu skrefi og svo verður söluferlið sett í gang.“

Stýrihópur á vegum borgarinnar mun hafa loka ákvörðunarvald varðandi hvaða arkitektastofur verða á endanum valdar til að teikna upp hverfið. Síðar á þessu ári verður svo gefinn upp tímarammi varðandi söluferlið.

Að sögn Óla Arnar var ákveðið að fara þessa leið í Skerjafirði, meðal annars vegna þess að Reykjavíkurborg á allt svæðið sem um ræðir. „Hérna höfum við tækifæri til að teikna ákveðna framtíðarsýn og fá samstarfsaðila snemma í ferlinu til að koma með sínar áherslur. Það flýtir skipulagsferlinu,“ útskýrir hann.

Skilyrði um fjölbreytileika

Að sögn Helga Geirharðssonar, verkefnastjóra, verða ýmis skilyrði sett um fjölbreytileika í hverfinu, bæði hvað varðar hönnun og byggingu. „Það hefur verið talað um ákveðinn þéttleika. Menn eru opnir fyrir útfærslum á því,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert