ESB ekki á dagskrá næstu árin

„Það er margstaðfest á löngum tíma að sterkur meirihluti Íslendinga er andvígur aðild að Evrópusambandinu. Menn sjá Evrópusambandið sem ólýðræðislegt skriffinnsku- og valdabákn og tilræði við þjóðlegt fullveldi,“ segir Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins, á vefsíðu sinni. Segir hann að mikið þurfi að gerast til þess að afstaða þjóðarinnar til inngöngu í sambandið breytist.

Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins.
Jón Sigurðsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, ráðherra og formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Sjálfur hefur Jón talað fyrir því í gegnum tíðina að Ísland gangi í Evrópusambandið en segir nú að það verði ekki á dagskrá um fyrirsjáanlega framtíð. Fyrir því tiltekur hann ýmsar ástæður. Þar á meðal útgöngu Bretlands úr sambandinu og efnahagsvanda Grikkja. Evrópusambandinu og evrunni sé kennt um ýmsan heimatilbúinn vanda. Bætir hann því við að Bretar geti hins vegar vel bjargað sér utan Evrópusambandsins og sambandið án þeirra.

„Hugsanlega ganga nokkur ríki úr Evrópusambandinu á næstu árum. Styrkur sambandsins og vægi miðast aftur á móti mest við Þjóðverja, Frakka og Niðurlendinga, og jafnvel einnig Ítala, Íra og Spánverja. Úrsögn sumra ríkja mun líklega helst hreinsa loftið. Margt bendir til að útþensla Evrópusambandsins hafi gengið of hratt og miklu hægari þróun sé heppilegari,“ segir Jón ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert