Búið að slökkva eldinn hjá United Silicon

Eldur kom upp í kísilverinu um fjögur í nótt.
Eldur kom upp í kísilverinu um fjögur í nótt. mbl.is/Víkurfréttir

Búið er að slökkva eld  sem kom upp í kísilveri United Silicon í Helguvík í nótt. Slökkviliðsmenn eru þó enn á með öryggisvakt á staðnum til að tryggja að glóð leynist hvergi. Eldur logaði í trégólfum á þremur hæðum í kísilverinu og voru aðstæður til slökkvistarfs erfiðar.

Tíu slökkviliðsmenn frá Brunavörnum Suðurnesja unnu að því að slökkva eldinn, sem tilkynnt var um um fjögurleytið í nótt, þar til að ganga sjö í morgun. Eldurinn kom upp í ofnhúsi kísilversins og logaði í trégólfum á þremur hæðum í byggingunni þegar slökkvilið kom á vettvang.

„Það er erfitt að eiga við þetta af því að þetta er nálægt ofninum og hár straumur þarna, þannig að þetta eru hættulegar aðstæður,“ sagði Jóni Guðlaugssyni, slökkviliðsstjóra Brunavarna Suðurnesja í samtali við mbl.is fyrr í morgun.

Vaktstjóri sem mbl.is ræddi við nú á áttunda tímanum sagði töluverðar skemmdir eftir brunann. „Það er búið að slökkva á ofninum, sem við urðum að gera, og það eru væntanlega mestar skemmdirnar þar í kring.“

Kvaðst hann telja líklegt að eldurinn hafi kviknað út frá glóð sem hafi komist í timburklæðningu á sjöttu hæð byggingar. Enn eigi þó eftir að sannreyna hver eldsupptök hafi verið og það verði lögreglan á Suðurnesjum sem muni fara með þá rannsókn.

Enginn slys urðu á fólki, en unnið er í kísilverinu allan sólarhringinn og uppgötvaðist eldurinn því fljótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert