Engin ákvörðun um lokun verksmiðjunnar

Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík.
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Umhverfisstofnun hefur ekki tekið neinar ákvarðanir um að loka kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík en mál fyrirtækisins eru hins vegar til skoðunar hjá stofnuninni. Tekin verður ákvörðun um framhaldið þegar þeirri athugun er lokið. Þetta segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun, í samtali við mbl.is.

Ýmis vandamál hafa plagað rekstur kísilmálmverksmiðjunnar undanfarna mánuði. Einkum tengd mengun frá fyrirtækinu. Eldsvoði kom síðan upp í verksmiðjunni í nótt en í kjölfar þess lýsti Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra yfir þeirri skoðun sinni að loka ætti verksmiðjunni á meðan það sem áfátt væri í rekstrinum væri lagað. Ráðherra hefur þó ekki valdið til þess að loka verksmiðjunni heldur Umhverfisstofnun. 

Vinna var í gangi hjá Umhverfisstofnun vegna kísilmálmverksmiðjunnar í aðdraganda páskanna og yfir þá vegna lyktaráhrifa sem talin eru koma frá verksmiðjunni. Meðal annars voru fyrirtækinu send tvö bréf vegna þess. Ákveðið var á skírdag að ef óundirbúið ofnstopp, sem varaði í klukkustund eða lengur, ætti sér stað myndi United Silicon ekki ræsa ofninn aftur, alla vega ekki á meðan norðlægar áttir væru ríkjandi.

Sigrún segir að þrátt fyrir þær aðgerðir sem gripið hafi verið til á skírdag hafi stofnuninni borist kvartanir á páskadag. Fyrir vikið var farið í eftirlitsferð í gær á annan í páskum og verið er að vinna úr niðurstöðum þess eftirlits í dag. Síðan hafi eldsvoðinn í nótt komið upp og hafi í kjölfarið verið kallað eftir upplýsingum um hann. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður unnið úr þeim og síðan tekin ákvörðun um framhaldið í kjölfar þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert