„Þetta var óskemmtileg lífsreynsla“

Fljúga á vél Primera frá Egilsstöðum til Keflavíkur um eittleytið …
Fljúga á vél Primera frá Egilsstöðum til Keflavíkur um eittleytið í dag.

Farþegar flugvélar Primera flugfélagsins sem voru á leið heim frá Tenerife gistu á Egilsstöðum í nótt. Vélin átti að lenda á Keflavíkurflugvelli um hálfníuleytið í gærkvöldi, en eftir ítrekaðar tilraunir til að lenda vélinni sem jafnan var hætt við vegna veðurs, var snúið frá og lent á Egilsstöðum.

Það gekk allt vel þar til kom að lendingu,“ sagði Þuríður Magnúsína Björnsdóttir sem var ásamt fjölskyldu sinni í flugvélinni. „Það var reynt að lenda í 3-4 skipti, en ókyrrðin í loftinu og veðrið svipti okkur frá og dýfði,“ segir hún.

Þuríður Magnúsína Björnsdóttir og Björn Arnarson lentu í mikilli ókyrrð …
Þuríður Magnúsína Björnsdóttir og Björn Arnarson lentu í mikilli ókyrrð þegar reynt var að lenda í Keflavík. Ljósmynd/Úr einkasafni

Margir voru orðnir smeykir um borð í vélinni og eins gerði flugveiki vart við sig hjá mörgum í ókyrrðinni. „Það var farið að dreifa plastpokum um allt,“ segir Þuríður. „Þetta var óskemmtileg lífsreynsla.“

Börnin orðin úrvinda

Flugmaðurinn hélt farþegum þó vel upplýstum um lendingatilraunir sínar að sögn Þuríðar, en á endanum komst hann að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að lenda í Keflavík að svo stöddu og var vélinni þá snúið til Egilsstaða.

Þar var fjölskyldan komin með hótelherbergi um hálftólf í gærkvöldi. „Það var vel af sér vikið hjá fólkinu hérna að finna gistingu fyrir okkur öll,“ segir Þuríður og kveður Egilsstaðabúa hafa reddað málum. Forgangur var settur á að börn fengju fyrst herbergi, enda voru þau líkt og aðrir farþegar orðin vel þreytt eftir ferðalagið. „Það voru þarna börn sem voru orðin úrvinda og gamalt fólk.“

Stefnt er á að fljúga flugvél Primera með farþegum suður til Keflavíkur um eittleytið í dag, þar sem áhöfn þurfti lögbundin hvíldartíma eftir ferðina. „Fólk var svo líka að tala um að börnin hefðu ekki lagt í það að fara strax aftur í flug, því þau voru svo hrædd,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert