Norskir sérfræðingar væntanlegir

Kís­il­verksmiðja United Silicon í Helgu­vík.
Kís­il­verksmiðja United Silicon í Helgu­vík.

„Við leysum þetta ekki með upphrópunum í fjölmiðlum,“ segir Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, spurður um ummæli Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra um að Umhverfisstofnun ætti að loka kísilverksmiðjunni United Silicon í Helguvík. 

Kristleifur bendir á að Umhverfisstofnun sé eftirlitsaðili með verksmiðjunni og að hún hafi vald til að loka henni.

Eldur braust út í verksmiðjunni í nótt. Ekki er vitað hver eldsupptök eru en rannsókn stóð yfir í dag og verður henni haldið áfram á morgun. 

Fresta þurfti komu norskra sérfræðinga í verksmiðjuna um einn dag en þeir hyggjast rannsaka starfsemina og reyna að finna út úr því hvernig hægt er að koma í veg fyrir lyktarmengun sem leggst yfir nágrennið þegar kveikt er á brennsluofnunum.

„Þeir ætla að reyna að hjálpa okkur við að leysa þetta lyktarvandamál. Tvö innlend fyrirtæki hafa einnig verið að aðstoða okkur við að leysa þetta,“ segir Kristleifur og bætir við: „Þetta er flóknara en við héldum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert