Starfsmaður „undir fallöxina“

Norðurál á Grundartanga.
Norðurál á Grundartanga. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verkalýðsfélag Akraness gagnrýnir Norðurál og segir það hafa brotið á fyrrverandi starfsmanni sínum sem var rekinn eftir vinnuslys sem Norðurál sakaði hann um að bera alfarið ábyrgðina á. Verkalýðsfélagið segir að málið sé ekki svo einfalt. Norðurál varpi allri ábyrgð á starfsmanninn þrátt fyrir að búnaður hafi ekki virkað eins og reglugerðir kveði á um. Þetta kemur fram á vef Verklýðsfélags Akraness

Mjög alvarlegt slys varð 22. mars síðastliðinn þegar tveir kranar skullu saman með þeim afleiðingum að svokölluð brímgræja sem er nokkur tonn að þyngd slóst í einn starfsmann. Hann var fluttur með sjúkrabíl til Reykjavíkur og var á gjörgæsludeild í viku eftir slysið og líður eftir atvikum vel.

Starfsmanninum, sem stýrði öðrum krananum, var vikið frá störfum átta dögum eftir slysið. Hann þurfti ekki að vinna uppsagnarfrestinn. Eftir slysið var nærveru hans ekki óskað í vinnuna.  

Fyrirtækið ekki með búnaðinn í lagi

„Kjarni málsins er að þetta slys átti aldrei að geta gerst [sic] ef fyrirtækið hefði haft búnaðinn í lagi. Því er það þyngra en tárum taki að fyrirtækið skuli hafa vogað sér að gefa út einhliða yfirlýsingu þar sem allri ábyrgðinni var varpað á herðar starfsmannsins. Í ljósi þessara staðreynda að búnaðurinn virkaði ekki sem skyldi er eðlilegt að spyrja: hver er ábyrgð fyrirtækisins á því að okkar félagsmaður leið andlegar vítiskvalir vegna þessa slyss, hefur stöðu sakbornings hjá lögreglu og hefur misst lífsviðurværi sitt til 14 ára?“ Þetta kemur jafnframt fram á vef Verkalýðsfélagsins. 

Verkalýðsfélagið gagnrýnir að Norðurál hafi sent frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrt er að ekkert virðist hafa verið að öryggisbúnaði kranans. Þessi yfirlýsing kemur á meðan rannsókn lögreglu og Vinnueftirlitsins stóð yfir og var ekki lokið. 

Ekki hægt að skella skuldinni á manninn á gólfinu

„Það gengur alla vega ekki að skella alltaf „litla manninum á gólfinu“ undir fallöxina ef einhver óhöpp og slys eiga sér stað og fyrirtækið og stjórnendur fría sig allri ábyrgð. Sér í lagi þegar þær staðreyndir blasa við í kringum þetta tiltekna slys að það hefði aldrei orðið hefði búnaður kranans uppfyllt reglugerð Vinnueftirlitsins," segir jafnframt í tilkynningunni. 

Verkalýðsfélagið og lögfræðingur félagsins hafa ítrekað reynt að ná sáttum í málinu og m.a. lagt fram sáttartillögu sem felst í því að Norðurál viðurkenni sína ábyrgð í málinu, þ.e.a.s. að búnaðurinn hafi verið bilaður. Því hefur verið hafnað af hálfu fyrirtækisins, að sögn Verkalýðsfélagsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert