Aðeins með rykgrímu að störfum

Bræðsluofn í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík.
Bræðsluofn í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík. Ljósmynd/United Silicon

Öryggi og aðbúnaði starfsmanna í kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík er ábótavant, að mati Kristjáns Gunnarssonar, formanns Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur. Fjölmargir starfsmenn fyrirtækisins hafa leitað til verkalýðsfélagsins og lýst áhyggjum af öryggi sínu og gert athugasemdir við aðbúnað á vinnustaðnum. 

Dæmi eru um að starfsmenn hafi eingöngu rykgrímu til að verjast mengun. Einnig hefur starfsmaður ítrekað verið beðinn um að vinna á tækjum sem hann hefur ekki réttindi til að starfa á, að sögn Kristjáns. 

Máli sínu til stuðnings hafa fyrrverandi starfsmenn sýnt Kristjáni myndefni af vinnuaðstöðu og starfseminni. Miðað við myndefnið og frásagnir mannanna er öryggismálum greinilega ábótavant í fyrirtækinu. „Ég hef áhyggjur af þessu,“ segir Kristján. 

Hann benti starfsmönnunum á að hafa samband við Vinnueftirlitið. Þar hefur Kristján fengið þau svör að Vinnueftirlitið muni taka þetta mál föstum tökum. 

„Ég treysti því að aðbúnaður og hollustuhættir fyrir starfsmenn verði bættir því þetta gengur ekki,“ segir hann. 

Farið af stað áður en allt var tilbúið

Hann bendir á að það líti út fyrir að starfsemin hafi farið af stað í fyrirtækinu áður en aðstaðan varð fullbúin. Til dæmis þurfa starfsmenn að matast og klæðast í skúrum við bygginguna. „Það er farið af stað áður en allt er klárt,“ segir Kristján og vísar til þess að undanfarið hefur fyrirtækið unnið að úrbótum á þeim athugasemdum sem fyrirtækinu hafa borist. 

Frá því starfsemi hófst hefur verið mikil starfsmannavelta hjá fyrirtækinu. Starfsmenn eru að stærstum hluta erlendir ríkisborgarar en Íslendingar eru einnig í hópnum. Þeir hafa einnig leitað til verkalýðsfélagsins vegna launa en margir höfðu væntingar til hærri launa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert