Flestir blaðamenn hafa fengið laun sín

Síðasta tölublað Fréttatímans kom út 7. apríl.
Síðasta tölublað Fréttatímans kom út 7. apríl. Skjáskot/Frettatiminn.is

Flestir blaðamenn Fréttatímans hafa nú fengið greidd laun sín fyrir marsmánuð. Síðasta tölublað kom út 7. apríl. Þá höfðu tíu starfsmenn ekki fengið greidd laun og einn stærsti eigandinn, útgefandi og annar ritstjóri blaðsins, Gunnar Smári Egilsson, stigið til hliðar.  

Forsvarsmenn útgáfunnar sögðu í kjölfarið að verið væri að reyna að endurskipuleggja hana. mbl.is hefur undanfarna daga reynt að ná tali af Valdimari Birgissyni framkvæmdastjóra til að fá upplýsingar um stöðu mála, en án árangurs. Valdimar er einn eigandi Morgundags, útgáfufélags Fréttatímans.

„Samkvæmt mínum upplýsingum er meirihluti blaðamannanna nú búinn að fá sín laun,“ segir Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, í samtali við mbl.is. Hann segir að enn séu þó laun einhverra í vanskilum eftir því sem hann best viti. „Það er auðvitað algjörlega óviðunandi.“

Hjálmar segir einnig slæmt að algjör óvissa ríki um framtíð útgáfunnar. „Það er mjög slæmt að halda fólki í slíkri óvissu,“ segir hann. „Mér skilst að menn séu að reyna að vinna í þessu en það hefur ekki komið nein niðurstaða ennþá.“

Hjálmar segir að Blaðamannafélag Íslands muni eins og kostur er reyna að standa vörð um hagsmuni sinna félaga. „Það er forgangsmál hjá okkur.“

Fram kom í frétt Fréttablaðsins í síðustu viku að enginn væri nú skráður stjórnarmaður í félaginu Morgundegi eftir að Gunnar Smári sagði skilið við fjölmiðilinn og Sigurður Gísli Pálmason, sem kom inn í eigendahópinn árið 2015, sagði sig úr stjórn þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert