Gera ráð fyrir köldu sumri

Ekki er búist við neinu sumarveðri á sumardaginn fyrsta.
Ekki er búist við neinu sumarveðri á sumardaginn fyrsta. mbl.is/Rax

Júlíus Baldursson, félagi í veðurklúbbnum á Dalvík, segir að fólk þurfi að fylgjast sérstaklega vel með veðrinu á sunnudaginn. Framhaldið ráðist mikið af því hvað veðurguðirnir bjóði upp á fyrsta sunnudaginn á sumri.

Samkvæmt íslenskri þjóðtrú boðar það gott sumar ef sumar og vetur frjósa saman. Með því er átt við að hiti fari niður fyrir frostmark aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Veðurfar hefur verið heldur rysjótt upp á síðkastið og líklegt að það verði frost víða nyrðra á morgun; sumardaginn fyrsta.

„Veðurfræðingarnir eru með þetta nokkurn veginn á hreinu. Þessi spá hjá þeim er að ganga upp og tilfinning okkar hérna er sú að sumarið verði frekar í kaldara lagi. Það verði vætusamt og frekar stutt,“ segir Júlíus í samtali við mbl.is.

Hann vill frekar horfa til sunnudagsins heldur en sumardagsins fyrsta og segir einn félaga í veðurklúbbnum hafa bent á það. „Hann sagði að sunnudagurinn myndi ráða því hvernig framhaldið yrði.“

Spurður að því hvort það eigi þá það sama við um fyrsta sunnudag á sumri og sumardaginn fyrsta; að kuldinn boði betri tíð, sagði Júlíus hlæjandi að ekkert kæmi fram hvað það varðar. 

„Þá er hægt að velja hvort okkur líst betur á.“

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert