Hvert stefnir Ísland

Salvör Nordal, Hulda Þórisdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ásgeir Jónsson og Hannes …
Salvör Nordal, Hulda Þórisdóttir, Kristrún Heimisdóttir, Ásgeir Jónsson og Hannes Hólmsteinn Gissurarson. Ljósmynd Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson.

Hvert stefnir Ísland er yfirskrift ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar HÍ í dag en þar er rætt um fullveldið, hnattvæðingu og alþjóðasamfélagið. Sem er á krossgötum ef marka má orð frummælenda. Er Ísland kannski bara nú þegar hluti af ESB? spyr Ásgeir Jónsson, deildarforseti og dósent við hagfræðideild Háskóla Íslands.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, segir að ekkert mæli á móti fjórfrelsi Evrópusambandsins en hann telji að Ísland eigi að halda fullveldi sínu og frekar halla sér að Atlantshafskostinum ef valið standi á milli tveggja kosta - Atlantshafinu eða Evrópu. 

Kristrún Heimisdóttir, rannsóknarfélagi í lögfræði við Columbia háskóla í New York, segir að fjármálahrunið hafi meðal annars sýnt okkur fram á nauðsyn þess að móta íslenska utanríkisstefnu. Nauðsynlegt sé að ræða í alvöru um öryggis- og varnarmál. Eins verði smákóngahugsjónin í íslensku atvinnulífi að víkja og sátt að myndast meðal forráðamanna í stjórnmálum og atvinnulífi þar um að láta þjóðarhagsmuni ráða för. Smákóngaveldið, til að mynda í ferðaþjónustu og annars staðar í atvinnulífinu, verði að lúta þjóðarhagsmunum. Hér blasi við nýr veruleiki þar sem hluti þjóðarinnar fær greidd laun í öðrum gjaldmiðlum eða er með eigur sínar geymdar í skattaskjólum.

Jaðarinn varði áður en er nú veikleiki Íslands

Íslensk þjóð hafi nýlega farið í gegnum reynslu sem sýni okkur hver raunverulega staða okkar er og vísar Kristrún þar til hrunsins. Þar hafi komið í ljós að vinaþjóðir og þátttaka í alþjóðastofnunum hafi reynst haldlítið á tímum þegar peningar réðu för ekki lög.

Jaðarinn varði okkur áður fyrr, segir Kristrún og vísar þar til legu landsins og lítinn áhuga stórvelda á Íslandi, en sá tími sé löngu liðinn og er veikleiki Íslands í dag.

Kristrún fjallaði í erindi sínu um utanríkisstefnu á þeim tímum sem ísinn er ótraustur og fór yfir þær breytingar sem hér urðu á degi sem sé mikilvægari en 17. júní, það er 1. desember 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki. Skref sem fól það í sér að Ísland varð nútímaríki. Árið 1920 fékk Ísland nýja stjórnarskrá en hún sker sig verulega úr meðal margra annarra stjórnarskráa því þar er ekki tekið á peningakerfinu né heldur varnar- og öryggismálum.

Hver er eiginlega stefna Íslands í þessum málum og hverju fær Ísland ráðið?, spurði Kristrún. Hún segir að það verði að gera á þessu bragarbók og skerpa sýn Íslands í utanríkismálum enda hafi embættismenn frá öðrum norrænum ríkjum viðurkennt fyrir henni að þeir skyldu stundum ekkert í stefnu eða stefnuleysi Íslands í þessum málaflokki. 

Meðal þess sem heimurinn stendur frammi fyrir, þar á meðal Ísland, er stærsti óvissuþátturinn um þessar mundir - Bandaríkin. Á sama tíma og Bretland treystir nú á hnattræna viðskiptastefnu hafa Bandaríkin snúið baki við fríverslunarpólitík. Þar er lögð ofuráhersla á að loka mörkuðum innanlands og fólk hvatt til þess að kaupa innlenda framleiðslu. Þetta er meðal annars gert til þess að skapa aukin atvinnutækifæri í Bandaríkjunum. 

Hvernig ætla Bretar að skapa fríverslun á heimsvísu (Global Britain) á sama tíma? spyr Kristrún en þessi tvö ríki eru meðal stærstu viðskiptaþjóða Íslands. 

Stefán Haukur Jóhannesson ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, er sammála Kristrúnu um að útganga Breta úr Evrópusambandinu skipti íslenska hagsmuni mikið og segir hann að í því felist bæði áskoranir og tækifæri en Bretar eru helsta viðskiptaþjóð Íslands. 

Evrópska bankalíkanið dautt

Fyrirlestur Ásgeirs Jónssonar hét „Peningalegt fullveldi sem grundvöllur stöðugleika“ en þar fjallaði hann um þær lexíur sem við getum lært af fjármálahruninu og því sem gerðist í október 2008 þegar við vorum yfirgefin af alþjóðasamfélaginu og Bretar, sem við töldum vini okkar, fóru í harðar aðgerðir gegn okkur.

Að sögn Ásgeirs er lexía númer 1 sú að lönd án forðagjaldmiðils geta ekki verið alþjóðlegar fjármálastöðvar. Meðal annars vegna þess að hver einasta króna sem liggur inni á bankareikningi getur leitað útgöngu. Í raun hafi gjaldeyrismarkaðurinn hrunið áður en bankarnir lögðust á hliðina en það gerðist eftir að Bandaríkjamenn neituðu Íslandi um lánafyrirgreiðslu en við það þornaði gjaldeyrismarkaðurinn upp.

Lexía númer 2 að sögn Ásgeirs snýst um evrópska bankalíkanið en fall íslenska bankkerfisins ber vitni um hættuna sem fylgir evrópska bankalíkaninu og jafnframt að líkanið er dautt.

Meðal þess sem fellst í evrópska bankalíkaninu er að skuldabréf hafa jafnan forgang að eignum þrotabanka og innlán. Yfirvöld muni alltaf koma í veg fyrir fall bankakerfis til þess að verja innlánin.

Á Íslandi var ríkisábyrgðin en frekar inngreypt í skuldabréfin vegna þess að bankarnir voru einfaldlega álitnir of stórir til þess að falla. Hér voru tengslin milli ríkisfjárhirslunnar og bankanna síðan rofin með neyðarlögum sem gáfu innlánseigendum forgang á skuldabréfaeigendur. Ísland er því enn sem komið er eina evrópska dæmið um að skuldabréfaeigendur hafi þurft að taka á sig tapið.

Mannréttindi brotin á Íslendingum með beitingu hafta

Lexía númer 3 er að þrátt fyrir að bólur og krísur séu alþjóðlegar þá eru lausnirnar heimasmíðaðar og vísar Ásgeir í að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi sennilega lært meira af Íslandi en Ísland af sjóðnum.

Fullveldi í peningamálum er lexía númer 4 að mati Ásgeirs en það gaf íslenskum yfirvöldum færi á að loka útgönguleiðum úr fjármálakerfinu. Þannig fengu íslensk stjórnvöld svigrúm til aðgerða og vald til þess að tryggja almanna hagsmuni. Þetta tryggði fjármögnun ríkissjóðs og hér varð til tvöfaldur gjaldeyrismarkaður. 

Með gjaldeyrishöftunum skapaðist samningsstaða fyrir stjórnvöld varðandi útgreiðslur úr slitabúum föllnu bankanna og þegar upp var staðið hafði ríkissjóður náð að endurheimta allan beinan útlagðan kostnað vegna bankahrunsins og gott betur.

Er Ísland of lítið myntsvæði er lexía númer 5 segir Ásgeir og að íslenska endurreisnin er ekki skólabókardæmi um gildi þess að hafa peningalegt sjálfstæði. 

Beiting hafta á árunum 2008 til vorra daga fól í sér brot á mannréttindum íslenskra þegna og mun fela í sér langtímakostnað. Ásgeir segir að það muni tala langan tíma að byggja upp tiltrú á krónunni á nýjan leik.

Gestir á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Hannes Hólmsteinn …
Gestir á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Hannes Hólmsteinn Gissurarson voru meðal framsögumanna. mbl.is/Árni Sæberg

Vandséð sé að Ísland geti notið fullkomins ábata frjálsra utanríkisviðskipta sem sérstakt myntsvæði þegar litið er fram í tímann. Gjaldeyrismarkaðir eru mjög kvikir og skrýtnir en notaðir af svo mörgum ólíkum hópum, einstaklingum, fyrirtækjum, vogunarsjóðum ofl. Eiginlega sé enginn annar markaður notaðu af jafn ólíkum hópum og því eru gjaldeyrisbreytingar mjög vondar. Að sögn Ásgeirs bendir ekkert til þess að tekist hafi að leysa þann vanda hér á landi.

Ísland ekki of lítið

Fyrirlestur Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar nefndist „Ísland sem Janus: Til beggja átta“ og vísaði prófessorinn þar til orða Gríms Thomsen um rómverska guðinn Janus. 

Janus hafði að sögn Hannesar tvær ásjónur það er hann hafði tvö andlit og leit eitt áfram en hitt aftur. Hannes segir að Íslendingar séu tvíátta - horfi vestur um haf og til Evrópu. 

Fjölgun smáríkja er eitt af jákvæðum hliðum hnattvæðingarinnar en þeim hafi fjölgað mjög. Tók hann dæmi af nokkrum smáríkum sem séu með auðugust ríkjum heims í dag. Svo sem Sviss, Írland, Lúxemborg, Noregur og Nýja-Sjáland.

Með hnignun alræðis og einræðis hafi minnkað andstaða við sjálfstæði smáþjóða eins og Eystrasaltsríkjanna þriggja, Slóvakíu og Slóveníu. 

Ísland sé alls ekki of lítið og kostir smáríkja séu margir þar ríki gagnkvæmt traust og gagnsæi, löggæsla sé ódýrari boðlínur styttri, sveigjanlegra hagkerfi líkt og dæmin sýna frá Norðurlöndunum. 

Hann rakti í fyrirlestri sínum sjálfstæðiskröfur Jóns Sigurðssonar og að sögn Hannesar var Jón mikill fylgismaður þess að Ísland ætti viðskipti við alla ekki bara ríki Evrópusambandsins heldur einnig Kína og fleiri ríkja.

Eigum að selja fisk og ferðaþjónustu

Að sögn Hannesar er hann andsnúinn þeim kenningum sem Anne Siebert og Baldur Þórhallsson hafa haldið fram um að Ísland sé of lítið og því sé hag þess betur borgið innan ESB. Smáríki séu ódýrari í rekstri en stórveldi og oftar með opið hagkerfi og því auðugri en stórveldin. 

Tveir kostir sem við stöndum frammi fyrir, að sögn Hannesar, Atlantshafs- eða Evrópusambandskostur. Þar sé Atlantshafskosturinn skárri þrátt fyrir áhugaleysi Bandaríkjanna og árásir bresku Verkamannaflokksstjórnarinnar árið 2008. Hann segir að ESB og hin Norðurlöndin hafi brugðist Íslandi í Icesave-málinu, Ísland sé kannski vinasnautt en ekki vegalaust. Enda eigi ríki ekki vini heldur hagsmuni.

Atlantshafskosturinn er líka nær okkur landfræðilega og menningarlega og þar eigi Íslendingar öflugri bandamenn en ESB. 

Hagsmunir Íslendinga felast að sögn Hannesar meðal annars í því að selja sem flestum fisk og ferðamannaþjónustu auk annarrar vöru og þjónustu. Úrganga Breta úr ESB veiti Íslendingum mikla möguleika og öryggi landsins er aðeins tryggt með samstarfi við Bandaríkin. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert