Margir í vandræðum á Holtavörðuheiði

Búið er að loka Holtavörðuheiði.
Búið er að loka Holtavörðuheiði. mbl.is/Styrmir Kári

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafa verið kallaðar út vegna 20 til 25 ferðalanga sem hafa lent í vandræðum á Holtavörðuheiði. Að sögn lögreglunnar á Blönduósi var heiðinni lokað um klukkan 20.30 í kvöld vegna óveðurs og fljúgandi hálku. Óvíst er hvenær hún verður opnuð aftur.

Flutningabíll valt á heiðinni og er bílstjóri hans á leiðinni á sjúkrahús með sjúkrabíl.

Lögreglan hefur ekki upplýsingar um líðan hans.

Þrjár til fjórar aðrar bifreiðar hafa farið út af veginum, auk þess sem aftanákeyrsla varð á heiðinni.

Að sögn Jónasar Guðmundsonar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg hafa öll tilvikin verið á norðanverðri heiðinni.

Um 30 björgunarsveitarmenn hafa verið á vettvangi frá klukkan hálfátta í kvöld. Jónas segir að veðrið á norðanverðri heiðinni sé „snarvitlaust“ og að þar sé illstætt.

Jónas bendir á vef Vegagerðarinnar til að sjá ástandið á fjallvegum landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert