Þorskstofninn hefur ekki mælst sterkari

Niðurstöðurnar eru mikilvægur þáttur í árlegri úttekt Hafró.
Niðurstöðurnar eru mikilvægur þáttur í árlegri úttekt Hafró. mbl.is/Golli

Stofnvísitala þorsks hefur hækkað nær samfellt frá árinu 2007 og mældist í marsralli nú sú hæsta frá upphafi rannsóknanna árið 1985. Hækkun vísitölunnar má einkum rekja til aukins magns af stórum þorski og í ár var vísitala allra lengdarflokka stærri en 55 cm yfir meðaltali rannsóknatímabilsins. Fyrsta mat á árganginum frá 2016 bendir til að hann sé lélegur. Auk þorsksins mældust stofnvísitölur gullkarfa og löngu háar miðað við síðustu þrjá áratugi.

Gott ástand í sjónum og skynsamlega staðið að veiðum

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum stofnmælingar botnfiska á Íslandsmiðum, svokölluðu togararalli eða marsralli, sem fram fór í 33. sinn 25. febrúar til 18. mars. Verkefnastjóri var Jón Sólmundsson, fiskifræðingur, og segir hann í samtali við Morgunblaðið að í heildina séu niðurstöður rallsins jákvæðar.

Þær megi einkum þakka góðu ástandi í sjónum við landið og að skynsamlega sé staðið að veiðum, þar sem byggt er á aflareglu í mörgum tegundum.

Útbreiðsla þorsks var meiri en í mörgum fyrri stofnmælingum í mars og góður afli fékkst á stöðvum allt í kringum landið. Mest fékkst af þorski utarlega á landgrunninu, frá Víkurál norður og austur um að Hvalbakshalla og óvenjumikið fékkst af þorski við sunnanvert landið.

Magn fæðu í þorski var um og yfir meðallagi og var loðna langmikilvægasta bráð þorsks og ýsu eins og ávallt á þessum árstíma.

Fjögur skip tóku þátt í verkefninu.
Fjögur skip tóku þátt í verkefninu. mbl.is/Árni Sæberg

Árgangar 2014 og 2015 mælast nú nálægt meðaltali

Í ár fékkst mikið af 85-105 cm þorski, en lítið mældist af 35-55 cm þorski sem rekja má til lítils árgangs frá 2013. Árgangar 2014 og 2015 mælast nú nálægt meðaltali í fjölda. Niðurstöðurnar eru mikilvægur þáttur árlegrar úttektar Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið. Mat á stofnstærð og tillögur Hafrannsóknastofnunar um aflamark fyrir næsta fiskveiðiár verða kynntar í júní.

Fjögur skip tóku þátt í verkefninu; rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson og togararnir Barði NK og Ljósafell SU. Togað var með botnvörpu á tæplega 600 stöðvum allt í kringum landið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert