„Ælufarþegum“ ekki hleypt í fríhöfnina

Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air.
Boeing 737-800 farþegaþota flugfélagsins Primera Air.

„Þetta var náttúrlega hræðilegt flug,“ segir listamaðurinn Pétur Gautur Svavarsson í samtali við mbl.is. Pétur var farþegi í vél flugfélagsins Pri­mera sem kom frá Teneri­fe og átti að lenda í Keflavík fyrr í vikunni, en þurfti að lenda á Eg­ils­stöðum vegna veðurs.

Margir farþeganna urðu veikir um borð í vélinni vegna ókyrrðar og fengu svo ekkert að borða þegar komið var til Egilsstaða. Til að bæta gráu ofan á svart var þeim síðan ekki hleypt í fríhöfnina þegar vélin lenti í Keflavík daginn eftir.

„Það er alveg rétt að halda því til haga að hefði flugstjórinn bara beðið með að fara í loftið í klukkutíma þá hefðum við lent örugglega í allt í lagi veðri í Keflavík,“ útskýrir Pétur. Það var ekki gert og ákveðið að fara af stað frá Tenerife á mánudaginn. „Það vita allir sem eru læsir að veðrið er hræðilegt heima og átti að vera hræðilegt á þessum tíma. Þegar hún fer að lækka flugið til Keflavíkur verður hristingurinn í flugvélinni hræðilegur og hún dettur niður sem er alveg versta tilfinning sem maður finnur, eins og hún falli niður um nokkra metra,“ bætir hann við.

Við ókyrrðina fór illa í maga margra farþeganna og telur Pétur að um 20% farþeganna hafi þurft að kasta upp í vélinni. „Ég held hún reyni tvisvar, þrisvar að lenda en síðan er farið til Egilsstaða,“ segir Pétur, en ekki var ballið búið enn eftir að vélin lenti á Egilsstöðum.

Ekkert til að borða á hótelinu

„Það tekur náttúrulega tíma að koma næstum 200 manns í koju á Egilsstöðum og ég held að við höfum verið komin upp í rúm svona þremur tímum seinna. Við vorum í hóteli sem er sumarhótel og er uppi á Hallormsstað, 30 eða 40 km frá Egilsstöðum,“ útskýrir Pétur.  Þá voru allir orðnir þreyttir og svangir en þá var fólkinu tilkynnt að ekkert matarkyns væri að hafa á hótelinu. 

Listamaðurinn Pétur Gautur.
Listamaðurinn Pétur Gautur. mbl.is/Golli

„Það fóru sem sagt allir í rúmið, svangir og þyrstir og ég er að tala um fólk sem var búið að æla og við flest vorum örugglega búin að missa nokkra lítra af svita,“ segir Pétur en mjög heitt var orðið um borð í vélinni. „Við vorum öll að kafna úr hita í lendingunum og ég hef aldrei á ævinni svitnað eins mikið eins og þarna í sætinu. En það var bara boðið upp á kranavatn.“

Þá segir hann að eflaust hefðu einhverjir farþeganna þurft á áfallahjálp að halda en hann segist til að mynda hafa hitt fjölskyldu sem sagði við komuna til Egilsstaða að þau hygðust taka bílaleigubíl og keyra til Reykjavíkur, þau muni aldrei stíga upp í flugvél framar eftir þessa lífsreynslu.

Virðuleg gamalmenni breyttust í óargadýr

Morguninn eftir var farþegunum ekið á Icelandair-hótelið á Egilsstöðum þar sem boðið var upp á fínan morgunmat að sögn Péturs en flogið var með sömu vél aftur til Keflavíkur klukkan eitt „Þá tekur við okkur þegar við lendum maður frá Isavia og segir kokhraustur að þar sem við erum að koma frá Egilsstöðum þá höfum við ekki rétt á að fara inn í fríhöfnina,“ segir Pétur.

Þá var mörgum farþeganna ekki skemmt en þeim var tilkynnt að samkvæmt íslenskum tollalögum væri þeim óheimilt að versla í fríhöfninni, þar sem strangt til tekið væru þau að koma úr innanlandsflugi. „Ég sá virðuleg gamalmenni breytast bara í hálfgerð óargadýr. Þau sögðu; „þið getið ekki tekið það af okkur, að mega ekki fara í fríhöfnina.“.“

Stóðu vörð í gulum vestum

Farþegarnir voru keyrðir að komusal flugstöðvarbyggingarinnar þar sem farangur þeirra kom á færibandið hvað lengst frá verslun fríhafnarinnar. „Svo standa Isavia-menn í gulum vestum og varna okkur að við komumst nálægt fríhöfninni,“ segir Pétur. „Passa að þessir ælufarþegar frá Tenerife, sem eru búnir að vera á ferðalagi í næstum sólarhring, að þetta er akkúrat liðið sem skal passa sig á að fari ekki inn í fríhöfnina.“

„Mér finnst þetta bara svo mikið óréttlæti að koma svona fram við fólk sem er búið að vera að lenda í þessum hrakningum, að fá þetta í þokkabót, að taka tollinn af fólki, löglegan toll [...] Fyrst að þetta er málið, af hverju var ekki búið að opna þá fríhöfnina á Egilsstöðum sem er þá til staðar?“

Sjálfur hafði Pétur keypt sinn toll í fríhöfninni á Spáni en það höfðu fæstir farþeganna gert. „Það hefði verið frábært ef við hefðum fengið að fara í fríhöfnina á Egilsstöðum, þá hefðum við getað keypt okkur vistir til þess að fara með upp á herbergi, þó ekki væri nema vatn eða kók eða Snickers eða eitthvað. Sumir voru ekki með neitt,“ segir Pétur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert