Mikið verk að ná upp bílnum

Mynd/Björgunarsveitin Húnar

Enn kunna að vera umferðartafir á Holtavörðuheiði þar sem unnið er að því að bjarga flutn­inga­bíl sem fór út af á heiðinni í gær. Gunnar Örn Jakobsson, formaður Björgunarsveitarinnar Húna, segist þó gera ráð fyrir að aðgerðum fari senn að ljúka. 

„Þetta er ekki enn þá búið en fer að styttast í að það fari að klárast,“ segir Gunnar Örn í samtali við mbl.is. Hafist var handa við að koma bílnum aftur upp á veg rétt fyrir klukkan ellefu í morgun og hafa aðgerðirnar tekið nokkrar klukkustundir. „Það er búið að vera dálítið mikið verk að eiga við þetta,“ bætir Gunnar við, en björgunarsveitin hefur aðstoðað bæði lögreglu og flutningafyrirtækið ET við að ná upp bílnum.

Sjálfum bílnum er búið að ná upp en nú er unnið að því að ná flutningavagninum en um er að ræða stóran og þungan farm af járni og járnavörum sem voru á leið norður á Akureyri þegar bíllinn valt.

Mynd/Björgunarsveitin Húnar

Að sögn Gunnars hefur þurft að loka veginum í stutta stund í einu inn á milli en annars hefur einstefnuumferð verið hleypt í gegn á víxl um svæðið. „Þannig að það eru bara örlitlar tafir eins og er,“ útskýrir Gunnar. Honum er ekki kunnugt um skemmdir á vörubílnum en telur ekki ólíklegt að þær séu nokkrar. 

„Þetta er búinn að vera mjög rólegur vetur,“ segir Gunnar Örn, spurður um helstu verkefni björgunarsveitarinnar að undanförnu. „Þetta er eiginlega fyrsta stóra útkallið á Holtavörðuheiði, og það á síðasta vetrardag. Yfirleitt erum við alltaf eitthvað þarna uppi. Þetta hefur verið afskaplega þægilegur vetur.“

Frá vettvangi á Holtavörðuheiði í gærkvöld.
Frá vettvangi á Holtavörðuheiði í gærkvöld. Mynd/Helga Rós Nielsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert