„Þetta var bara ákvörðun tollsins“

Farangursfæriband í komusal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar.
Farangursfæriband í komusal flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Mynd/Júlíus Sigurjónsson

„Mér finnst þetta satt að segja mjög undarlegt, af því að þeir vita náttúrlega nákvæmlega hvaðan farþegarnir eru að koma og hvernig í málinu liggur,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Fyrr í dag ræddi mbl.is við farþega sem kom með flugvél  sem lenda þurfti á Egilsstöðum vegna slæms veðurs í Keflavík, en þegar vélinn hélt aftur til Keflavíkur daginn eftir var farþegum meinað að versla í fríhöfninni.

Starfsmenn Isavia voru fengnir að beiðni tollgæslunnar til að standa vörð svo farþegar vélarinnar færu ekki inn í fríhafnarverslunina. „Það er náttúrlega tollurinn sem framfylgir tollalögum á Íslandi,“ segir Guðni.  „Eflaust er verið að fara eftir ströngustu reglum en okkur þykir skrítið að það sé ekki hægt að gera undantekningar í þessu tilviki.“

Að sögn Guðna fór tollgæslan fyrst fram á það við Isavia að fríhafnarversluninni yrði lokað á meðan farþegarnir færu í gegn. „Við sögðum að það væri ekki hægt vegna þess að það væru aðrar vélar að fara líka. Það kom ekki til greina af hálfu Isavia enda væru farþegar úr fleiri vélum á leið í gegnum komusalinn.

„Þá sögðu þeir að þá yrðum við að standa vörð og þá náttúrlega var fólk mjög reitt yfir þessu og út í starfsmenn Isavia sem náttúrlega komu ekkert að málinu,“ segir Guðni. „Þetta var bara ákvörðun tollsins, þeir hefðu í rauninni átt að sinna því að tollalögum yrði framfylgt en ekki starfsfólk Isavia.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert