„Annar og kunnuglegri tónn“

Landspítalinn í Fossvogi.
Landspítalinn í Fossvogi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnendum Landspítala er brugðið, nú þegar ríkisstjórnin hefur lagt fram fjármálaáætlun 2018-2022, eftir mikla umræðu um heilbrigðiskerfið og fjármögnun þess í aðdraganda kosninga. Mikið nýtt fjármagn mun koma til á seinni hluta tímabilsins og renna að miklu leyti í stofnframkvæmdir, segir forstjóri Landspítala í föstudagspistli sínum, en „þegar kemur að rekstri þjónustunnar kveður við annan og öllu kunnuglegri tón. Fjármálaáætlunin gerir ráð fyrir að Landspítali dragi verulega saman í rekstri á næsta ári.“

Í pistli sínum, sem birtist á vef Landspítalans, segist Páll Matthíasson vonast til þess að fjármálaáætlunin veðri leiðrétt “með hliðsjón af raunveruleikanum.“ Að öðrum kosti bíði spítalans það verkefni að draga fram aðgerðir til að mæta kröfu ríkisvaldsins.

Páll segir nýtingu spítalans hafa verið langt yfir eðlilegum viðmiðunarmörkum, sem miðist meðal annars við 85% nýtingu bráðalegudeilda en á einstökum einingum hafi nýtingin verið allt að 150%. Á sama tíma hafi þó náðst frábær árangur á ýmsum sviðum, m.a. í biðlistaátaki vegna liðskiptaaðgerða og fleiri aðgerðaflokka.

Þá kemur forstjórinn inn á ráðstöfun ríkisins á landi Vífilsstaða og segir aðalástæðu athugasemda spítalans við þá tilhögun að landið færi undir Ríkiseignir hafa verið þá að skynsamlegt væri „að hafa svigrúm innan marka höfuðborgarsvæðisins til uppbyggingar næstu kynslóðar sjúkrahúsa, sjúkrahúss sem þyrfti að vera risið eftir 40-50 ár.

Það er í því ljósi sem við horfðum til Vífilsstaða. Niðurstaðan varð hins vegar sú að ríkið leysti til sín landið og hefur nú ráðstafað því, væntanlega að loknu mati stjórnvalda á því hvaða nýting landsins þjóni best heildarhagsmunum samfélagsins. Um það er ekkert frekar að segja.“

Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert