Ástríða og andlitsmálning

Á leið á hátíð. Hulda Lind Kristins, Magnea Baldursdóttir og …
Á leið á hátíð. Hulda Lind Kristins, Magnea Baldursdóttir og Birgitta Sigursteinsdóttir frekar drungalegar í hlutverkum sínum í stuttmyndinni The Goth Gang, sem Leikhópurinn X vinnur að um þessar mundir. Ljósmynd/Kristján Þór Ingvarsson

„Þetta er ástríðuverkefni,“ segir Birgitta Sigursteinsdóttir, kvikmyndagerðarmaður um stuttmyndina The Goth Gang, sem Leikhópurinn X vinnur að um þessar mundir.

Birgitta leikstýrir og leikur í stuttmyndinni. Myndin fjallar um þrjár konur sem ætla á goth-hátíð í Þýskalandi, fara óhefðbundnar leiðir til að fjármagna ferðalagið og hitta skrautlegt fólk á þeirri leið.

Birgitta segir að hugmyndin að stuttmyndinni hafi þróast út frá YouTube-myndskeiði, sem leikhópurinn gerði í fyrra. „Þar vorum við að vinna með hvað væri skrítnasta umhverfið fyrir goth-stelpur og úr varð að gera myndskeiðið í heilsubúð. Það kom skemmtilega út og vakti forvitni okkar enn frekar um þessar persónur svo það var eiginlega ekkert annað í stöðunni en að gera stuttmynd um þær,“ segir hún enda sé gaman að vinna með goth-stíl, vera í ýktum búningum og mikið málaðar.

Goth-menningin hefur verið tengd við sérstaka tónlist, myndlist, bókmenntir og …
Goth-menningin hefur verið tengd við sérstaka tónlist, myndlist, bókmenntir og fatatísku þar sem notkun á svörtum klæðnaði er áberandi.


Vandræðalegar aðstæður

Þær Birgitta, Hulda Lind Kristins og Magnea Baldursdóttir leika aðalhlutverkin í myndinni en leikarar í Leikhópnum X fara með önnur hlutverk. Birgitta segir að aðalpersónurnar þrjár séu þvingaðar saman í hóp og settar í sérstakar aðstæður. Allflestar persónurnar í myndinni séu frekar sérstakar og aðstæðurnar oft vandræðalegar, sérstaklega fyrir konurnar í goth-genginu sem séu hlédrægar og viðkvæmar sálir á bak við andlitsmálninguna og framhliðina sem þær setja jafnan upp.

Myndin á að verða um 15 mínútur að lengd og er stefnt að því að hún verði tilbúin í haust. Myndin verður öll tekin upp á ensku en gerist þó á Íslandi. Birgitta segir að leikhópurinn njóti aðstoðar fólks sem er að læra kvikmyndagerð og taki þátt í þessu verkefni af einskærum áhuga. „Við höfum reynt að sækja um styrki til að geta gefið fólkinu að borða,“ segir hún um fjármögnunina.

Leikhópurinn stefnir að því að koma myndinni á kvikmyndahátíðir þegar hún verður tilbúin. En eru hátíðir á borð við þá, sem goth-stúlkurnar þrjár ætla að sækja, til? „Já,“ svarar Birgitta og segir vinkonu sína hafa farið á eina slíka í Þýskalandi þar sem þessi menning nýtur talsverðrar hylli.

Goth-menning er talin eiga upptök sín í pönkinu.
Goth-menning er talin eiga upptök sín í pönkinu.


Á rætur í pönkinu

Goth-menning er talin eiga upptök sín í pönkinu sem byggist á andstöðu eða uppreisn gegn ríkjandi gildum eða tísku samtímans. Í grein í Morgunblaðinu árið 2005 eftir Þóru Þórisdóttir segir að goth-menningarkiminn endurvinni bæði hugmyndaheim og táknmyndir úr trúarbrögðum og goðsögum þar sem hinar „dökku“ hliðar þeirra séu endurskilgreindar og fundin leið til að finna fegurð í lífinu, sársauka og dauða. Goth-menningin hafi verið tengd við sérstaka tónlist, myndlist, bókmenntir og fatatísku þar sem notkun á svörtum klæðnaði sé áberandi. Þá sé óvenjuleg hárgreiðsla, tattú, líkamsgötun og notkun ákveðinna táknmynda einkenni hennar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert