„Leggstu niður, leggstu niður“

Hinn eftirlýsti brotamaður, sem leitað hafði verið að í sumarhúsinu, …
Hinn eftirlýsti brotamaður, sem leitað hafði verið að í sumarhúsinu, var handtekinn daginn eftir í Miðhúsaskógi. Myndin er af aðgerðum lögreglunnar þann dag. Photo/​Pressphotos.biz

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða brúðhjónum og gesti þeirra skaðabætur eftir að sérsveitarmenn, með aðstoð þyrlu, gerðu áhlaup að sumarhúsi í Grímsnesi sem fólkið dvaldi í sumarið 2013. Fólkinu var skipað að leggjast á jörðina og voru tveir handteknir. Sérsveitarmennirnir, sem voru 4-5 talsins, voru vopnaðir skammbyssum í slíðrum, gasi og kylfum. Vopnunum var ekki beitt. 

Er atvikið átti sér stað í júlí 2013 var sérsveit lögreglunnar við leit á svæðinu að eftirlýstum manni sem grunaður var um ofbeldisbrot og taldi lögreglan að umræddur maður, Stefán Logi Sívarsson, væri í sumarhúsinu. Því var farið í aðgerðina. Þetta reyndist ekki rétt og Stefán Loga var hvergi að finna. 

 Með dómi héraðsdóms Reykjavíkur frá 14. febrúar 2014 var Stefán Logi dæmdur í sex ára fangelsi fyrir ýmis þeirra brota sem hann var eftirlýstur fyrir.

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. apríl síðastliðnum segir m.a. að „ró stefnenda, sem áttu sér einskis ills von eða höfðu nokkuð til þess unnið, var raskað með harkalegum hætti þar sem þau máttu síst eiga von á slíkri innrás.“ Þremenningarnir fóru fram á 1,5 milljónir króna í bætur hver. Niðurstaða dómsins er hins vegar sú að ríkið skuli greiða þeim hverju fyrir sig 150 þúsund krónur ásamt vöxtum. Þá er málskostnaður felldur niður. 

Gleðskapur hlaut skjótan endi

Brúðhjónin sem um ræðir höfðu gift sig helgina áður en aðgerð sérsveitarinnar fór fram. Þau dvöldu í sumarhúsi í Grímsnesi ásamt vini sínum til að gleðjast yfir tímamótunum. Hátíðarhöldin fengu skjótan endi þegar vopnað lið svart- og grímuklæddra sérsveitarmanna ruddist inn á lóð sumarhússins og skipaði þeim að leggjast niður. Það fyrsta sem þau heyrðu var þyrla sem sveimaði lágt yfir sumarhúsinu. Þegar lögreglan kom svo í átt að húsinu lagðist gestur hjónanna niður en parið hljóp óttaslegið inn í sumarhúsið. Þar var því skipað að leggjast á gólfið og brúðguminn var handjárnaður.

Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra að störfum.
Sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra að störfum. mbl.is/Styrmir Kári

Upphaf málsins má rekja til þess að lögreglumaður á Selfossi varð var við þrjá einstaklinga á ferð við Þrastarlund í Grímsnesi. Hann taldi sig þekkja fólkið og að einn þeirra væri hinn eftirlýsti ofbeldismaður. Á grundvelli þessara upplýsinga fór sérsveit ríkislögreglustjóra, ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar, á vettvang. 

Í yfirliti héraðsdóms um málið segir að gest brúðhjónanna svipi til hins eftirlýsta manns í útliti. Þegar ljóst var að ekki var um sama mann að ræða hafi hann verið tekinn úr handjárnum.

Í aðgerðinni leituðu sérsveitarmennirnir í sumarhúsinu og umhverfis það. Fullrúar lögreglunnar komu svo aftur á vettvang seinna sama dag og fengu heimild fólksins til að leita enn frekar í bústaðnum.

Vildu bætur vegna húsleitar og handtöku

Þremenningarnir höfðuðu skaðabótamálið í sameiningu og segja að mikilli hörku hafi verið beitt í aðgerðum lögreglunnar. Þeir fullyrða að hinn eftirlýsti hafi aldrei verið í sumarhúsinu, né hafi hann verið á leiðinni þangað. Þá sé engin tenging milli þeirra og hans. Þau hafi því ekkert sér til sakar unnið heldur hafi þvert á móti verið í góðu yfirlæti að halda upp á brúðkaup. Fólkið taldi sig því eiga rétt til bóta vegna órökstuddrar húsleitar og ólögmætrar handtöku.

Í rökstuðningi íslenska ríkisins fyrir dómi kom fram að fyrir lægi að leitaraðgerðin bar ekki tilætlaðan árangur þar sem hinn eftirlýsti fannst ekki í bústaðnum. Þá sé ekki útilokað að lögreglumaðurinn hafi ruglað hinum eftirlýsta brotamanni saman við gest brúðhjónanna. Hélt ríkið því fram fyrir dómi að þremenningarnir hefðu allir komið við sögu lögreglu áður. Þá hafi vísbendingar verið um að hinn eftirlýsti brotamaður væri í nágrenni bústaðarins. Leitaraðgerð lögreglu hafi aðeins tekið nokkrar mínútur og að henni lokinni hafi fólkið verið reist upp og hinum handtekna sleppt. Ríkið dregur ekki í efa að fólkið hafi orðið fyrir ónæði en telur að aðgerðirnar hafi ekki valdið þeim fjártjóni eða miska.

Upptaka af áhlaupinu

Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að nokkrar færslur úr dagbók lögreglu séu til um atburðina. Þá hafi þeim frekar verið lýst í skýrslu lögreglu sem var rituð 14. desember 2015, rúmum tveimur árum eftir að atvikið átti sér stað. Önnur skjalleg gögn er ekki að hafa um málið. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð í aðgerðunum. Hún sveimaði yfir sumarhúsinu. …
Þyrla Landhelgisgæslunnar var notuð í aðgerðunum. Hún sveimaði yfir sumarhúsinu. Það varð til þess að fólkið fór að taka upp myndband á síma. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þremenningarnir lögðu hins vegar fram upptöku af atburðunum með hljóði og að hluta til einnig með myndefni. Upptakan hefst er þyrlan nálgast og má heyra að þremenningarnir undrast hvað sé í gangi. Þegar um tvær og hálf mínúta er liðin af upptökunni bar lögreglu að garði og eftir það er aðeins unnt að greina hljóð, en ekki mynd. Þá var brúðgumanum, sem hélt á símanum, skipað að leggjast á gólfið. Þar var hann handjárnaður en upptakan gekk áfram í um sex mínútur til viðbótar. 

Ekki strax borin kennsl á parið

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að færslur í dagbók lögreglunnar þennan dag bendi til þess að lögreglumaðurinn hafi ekki strax borið kennsl á brúðhjónin í Þrastarlundi. Hann hafi þurft að afla sér frekari upplýsinga. Því fellst dómurinn ekki á þær röksemdir íslenska ríkisins að tilefni hafi verið til að ráðast í aðgerðirnar gegn þremenningunum út frá þessum rökum.

Þá segir í niðurstöðu dómsins að sú fullyrðing að fólkið hafi allt komið við sögu lögreglu áður eigi sér ekki stoð í gögnum málsins. 

„Hendur fyrir aftan bak“

Aðalvarðstjórinn sem gaf skýrslu fyrir dóminum sagði að aðgerðin, sem í heild hafi tekið í mesta lagi fimmtán mínútur, hafi hafist á tilkynningu um að á ferðinni væri vopnuð lögregla og fólki bæri að hlýða. Þá tilkynningu er ekki auðvelt að greina á upptökunni, en þar heyrist hrópað: „Leggstu niður, leggstu niður, leggstu á magann, hendur fyrir aftan bak.“

Síðan virðist sem farið sé inn í húsið með upptökutækið og aðeins dregur niður í hávaðanum frá þyrlunni. Greina má að brúðurin grætur og heyrist hún segja að þau séu í brúðkaupsferð og spyrja hvað sé í gangi og þá er enn gefin skipun um að leggjast niður. Svarar konan síðan spurningum lögreglu milli ekkasoga og kveðst ekki kannast við þann eftirlýsta sem lögreglan leitaði að. Brúðguminn svaraði því til að hann vissi hver maðurinn væri en vissi ekki hvar hann væri að finna. Greinilegt var af svörum hans að þeim væri ekki vel til vina og að hann væri undrandi á því að lögregla teldi hann vera nálægt sér. Upptökunni lýkur meðan á þessu samtali stendur.

Nokkuð óljóst er hvort báðir karlmennirnir hafi verið settir í handjárn eða aðeins annar þeirra en dómurinn telur líklegra að þeir hafi báðir verið handjárnaðir. Fólkið hafi allt sætt frelsissviptingu.

Konan sagði fyrir dómi að atvikið hefði haft mikil áhrif á sig. Hún hafi verið kvíðasjúklingur fyrir en sér hefði versnað mikið í kjölfar þessa máls. 

Stuðluðu ekki að aðgerðunum

„Ekkert er fram komið í málinu sem bendi til þess að stefnendur hafi stuðlað að umræddum aðgerðum lögreglu og eiga þau bótarétt vegna þeirra,“ segir m.a. í niðurstöðu dómsins. „Þótt ekki hafi verið lögð fram haldbær gögn um að frelsisskerðingin hafi haft neinar varanlegar andlegar eða líkamlegar afleiðingar fyrir stefnendur er fallist á að þessar aðgerðir og framkvæmd þeirra hafi valdið þeim miska.“

Er íslenska ríkinu því gert að greiða fólkinu hverju fyrir sig 150 þúsund krónur auk alls málskostnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert