Reyndi að stinga lögreglu af

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af tveimur konum sem sátu í bíl við Kópavogskirkju um hálfeittleytið í nótt, en talið var að konurnar væru að neyta þar fíkniefna.  

Konurnar höfðu engin fíkniefni meðferðis er lögreglu bar að og sögðust ekki með lykla að bílnum sem þær sátu í. Lögreglumenn reyndu þá að hringja í skráðan eiganda bifreiðarinnar án árangurs. Skömmu síðar barst hins vegar tilkynning um að bíllinn væri stolinn og hafði lögregla þá aftur afskipti af konunum sem nú voru komnar upp í Breiðholt. 

Voru þær handteknar vegna gruns um að hafa stolið bílnum og vistaðar í fangageymslu vegna rannsóknar málsins. 

Það var síðan rúmlega tvö í nótt sem lögregla ætlaði að stöðva bifreið við Heiðargerði í Reykjavík. Ökumaðurinn reyndi að stinga lögreglu af, en stöðvaði síðan bílinn og reyndi þá að hlaupa af vettvangi. Lögreglumenn náðu þó að handsama hann, en farþegar í bílnum náðu að komast undan. 

Ökumaðurinn er grunaður um að hafa ekið bílnum undir áhrifum fíkniefna og fyrir að aka bíl þrátt fyrir að vera sviptur ökuréttindum og segir í dagbók lögreglu að um ítrekað brot sé að ræða. Þá er hann grunaður um brot á vopnalögum. Maðurinn var vistaður í fangageymslu vegna rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert