Fjölmargir teknir ölvaðir eða dópaðir undir stýri

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sinnti fjölmörgum verkefnum á næturvaktinni, en flest þeirra tengdust ökumönnum sem óku undir áhrifum áfengis eða vímuefna. Hafði lögreglan afskipti af 20 ökumönnum í gærkvöldi í nótt vegna þessa.

Þá gista nokkrir í fangageymslum lögreglu.

Lögreglan hugðist m.a. stöðva bifreið við Grettisgötu í miðborg Reykjavíkur á öðrum tímanum í nótt en ökumaðurinn sinnti ekki sinnti ekki stöðvunarmerkjum. Þegar bifreiðin stöðvaði loks færði ökumaðurinn sig í aftursætið og neitaði akstri. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og akstur sviptur ökuréttindum , vegna ítrekaðra brota.  Að lokinni sýnatöku var ökumaðurinn vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Þá var ökumaður handtekinn á Frakkastíg rúmlega fimm í morgun vegna ölvunaraksturs en áður hafi hann ekið á kyrrstæða bifreið.

Um klukkustund síðar var annar ökumaður handtekinn fyrir að aka ökutæki undir áhrifum fíkniefna. Einnig er hann grunaður um að hafa ekið farþegum gegn gjaldi án þess að hafa tilskilin leyfi til farþegaflutninga í atvinnuskyni.

Á fimmta tímanum í nótt var tilkynnt um líkamsárás við Hafnarstræti í miðborg Reykjavíkur. Þar var maður sagður vera með áverka á höfði. Lögregla fór á vettvang en nánari upplýsingar liggja ekki fyrir að svo stöddu.  

Þá var maður handtekinn á fimmta tímanum í nótt á heimili í Breiðholti, en maðurinn er grunaður um heimilisofbeldi. Hann var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Á þriðja tímanum í nótt var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki við Dalbraut. Farið var inn og var fartölvu m.a. stolið. Tveir ungir menn handteknir grunaðir um innbrotið.  Mennirnir voru vistaðir í fangageymslu fyrir rannsókn máls.  Þá var annar mannanna með ætluð fíkniefni í fórum sínum og er hann einnig grunaður um sölu og/eða dreifingu fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert