Lét meiðslin ekki stöðva sig

Júlíus Orri Ágústsson og faðir hans, Ágúst Herbert Guðmundsson, sem …
Júlíus Orri Ágústsson og faðir hans, Ágúst Herbert Guðmundsson, sem þjálfar liðið, á æfingu í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Tíundi flokkur Þórs á Akureyri í körfubolta fór með sigur af hólmi á Scania Cup í Svíþjóð á dögunum. Leikstjórnandi liðsins, hinn 15 ára gamli Júlíus Orri Ágústsson, fékk þær upplýsingar frá sænskum lækni fyrir úrslitaleikinn að hann væri mögulega fingurbrotinn á skothendinni.

Læknirinn ákvað að setja Júlíus í spelku en hann lét það ekki stöðva sig og leiddi lið Þórs til sigurs.

„Ég fékk upplýsingar frá lækni í Svíþjóð um að fingurinn væri líklegast brotinn. Ég var settur í spelku en spilaði nú án hennar. Ég fann ekkert mikið fyrir fingrinum, bara smá,“ segir Júlíus.

Þegar heim var komið kom í ljós að ekki var um brot að ræða, sem var mikill léttir þar sem Júlíus stefnir á keppni með undir 16 ára landsliði Íslands í sumar. „Það er mjög stíft æfingaprógramm með landsliðinu í sumar og síðan er Norðurlandamót í Finnlandi og Evrópumót í Rúmeníu.“ Fimm aðrir leikmenn úr sigurliði Þórs voru einnig valdir í landsliðið.

Sætur sigur í Svíþjóð

Í fyrra lék Þór einnig til úrslita á Scania Cup en laut þá í lægra haldi fyrir Solange Vikings frá Svíþjóð. Júlíus segir að það hafi ekki komið annað til greina í ár en að vinna mótið. „Eina markmiðið var að vinna mótið, við ætluðum okkur aldrei neitt annað, við ætluðum bara að vinna þetta.“ Úrslitaleikurinn í ár var á móti liði Stjörnunnar og var því um sannan Íslendingaslag að ræða. Hann segir að það hafi verið sætt að vinna Stjörnuna í úrslitaleiknum enda mikil keppni á milli liðanna á mótum hérlendis.

Júlíus segist afar ánægður með frammistöðu liðsins á mótinu í ár en það fór taplaust í gegnum allt mótið. „Við spiluðum sex leiki og unnum þá alla. Við mættum mjög sterku liði frá Finnlandi í riðlakeppninni og unnum rétt svo með tveim stigum. Það var tæpasti sigurinn.“

Úr mikilli íþróttafjölskyldu

Júlíus á ekki langt að sækja körfuboltahæfileikana en faðir hans, Ágúst Herbert Guðmundsson, spilaði með meistaraflokki Þórs á árunum 1987 til 1992 og hefur þjálfað í körfubolta síðan, meðal annars tíunda flokk Þórs. Ágúst segir að árangur liðsins á Scania Cup hafi komið sér á óvart. „Við fórum taplausir í gegnum þetta mót og unnum með meiri yfirburðum en ég sjálfur átti von á,“ segir Ágúst.

Móðir Júlíusar, Guðrún Gísladóttir, er fyrrverandi bikarmeistari í þolfimi og tvöfaldur Íslandsmeistari í fitness.

Fetar í fótspor körfuboltasnillinga

Scania Cup er boðsmót fyrir lið frá Norðurlöndum. Keppt er í sjö aldursflokkum karla og kvenna og eru 16 lið í hverjum aldursflokki. Að sögn Ágústs Herberts Guðmundssonar, þjálfara sigurliðs Þórs, hafa Íslendingar einungis farið með sigur af hólmi í 7 úrslitaleikjum af þeim 504 sem spilaðir hafa verið á mótinu. „Það sýnir hvað þetta er sterkt mót,“ segir Ágúst. 

Lið Þórsara sigraði lið Stjörnunnar með 29 stiga mun í úrslitakeppninni í ár. Júlíus Orri Ágústsson var valinn Scania Cup King eða maður mótsins í ár en meðal Íslendinga sem hafa hlotið þann titil má nefna Herbert Arnarson, Jón Arnór Stefánsson, Jón Arnar Ingvarsson og Hauk Helga Pálsson. Helena Sverrisdóttir hefur síðan verið valin Scania Cup Queen, ein íslenskra kvenna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert