Ákærðir fyrir tilraun til hryðjuverka

Franskir sérsveitarmenn handtóku mennina í síðustu viku.
Franskir sérsveitarmenn handtóku mennina í síðustu viku. AFP

Yfirvöld í Frakklandi hafa ákært tvo menn fyrir tilraun til að fremja hryðjuverk í landinu, en mennirnir eru sakaðir um að hafa ætlað að gera árás fyrir forsetakosningarnar sem fara fram í Frakklandi í dag.

Lögreglan og sérsveitarmenn handtóku mennina á þriðjudag í Marseille, en þeir eru grunaðir um tengsl við hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Ríki íslams. Mennirnir, sem eru franskir ríkisborgarar, eru 23 og 29 ára gamlir. Sá yngri heitir Clement Baur og sá eldri Mahiedine Merabet. 

Mennirnir eru sakaðir um að hafa skipulagt hryðjuverkaárás og einnig fyrir vopnalagabrot. 

Mennirnir bjuggu saman í íbúð í frönsku hafnarborginni. Við leit í íbúðinni fundust skammbyssur, vélbyssa, þrjú kíló af sprengiefni og heimatilbúin handsprengja auk fána Ríkis íslams. 

Lögreglan hóf leit að mönnunum 12. apríl eftir að hafa fengið myndskeið í hendur þar sem mennirnir sjást lýsa yfir hollustu við Ríki íslams. 

Baur og Merabet notuðust við ýmis dulnefni, skiptu reglulega um farsíma og notuðu fyrirfram greidd greiðslukort til að villa um fyrir lögreglunni.

Tveimur dögum eftir að mennirnir voru handteknir, skaut Karim Cheurfi lögreglumann til bana við Champs Elysees-breiðgötuna í París. Lögreglan skaut síðan manninn til bana. Miði þar sem þar sem Ríki íslams er hrósað fannst skammt frá líkinu. 

Yfir 230 hafa fallið í árásum herskárra íslamista í Frakklandi frá því í janúar 2015, að því er segir í frétt AFP.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert