Ákærður fyrir 20 milljóna skattalagabrot

Húsnæði embættis Héraðssaksóknara.
Húsnæði embættis Héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært sextugan karlmann og tvö einkahlutafélög í ferðaþjónustu sem eru í eigu mannsins fyrir meiri háttar skattalagabrot. Hin meintu brot eru sögð hafa átt sér stað frá árinu 2013 til 2016 og eru vegna vanskila á virðisaukaskatti og að fyrirtækin hafi ekki staðið skil á staðgreiðslu sem haldið var af launum starfsmanna fyrirtækisins.

Er maðurinn stjórnarformaður og framkvæmdastjóri beggja félaganna. Í ákæru málsins kemur fram að annað félagið hafi ekki staðið skil á 1,1 milljón í virðisaukaskatt í fyrra. Þá hafi sama félag ekki staðið skil á 12,2 milljónum í staðgreiðslu á árunum 2013-2016.

Þá hafi seinna félagið ekki staðið skil á 5,8 milljóna staðgreiðslu af launum starfsmanna árin 2014-2015.

Er farið fram á að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert