Fann fjársjóð undir gólffjölum

Vala með síðuna góðu úr Morgunblaðinu með viðtali við afa …
Vala með síðuna góðu úr Morgunblaðinu með viðtali við afa hennar, Gunnar Thoroddsen. mbl.is/RAX

Undir gólffjölum í gömlu húsi í Mosfellsbæ leyndist síða úr gömlu dagblaði sem margir hefðu líklega afgreitt sem gamalt rusl og hent í næstu ruslatunnu. En í augum húsráðandans, Völu Markar Jóhannesdóttur Thoroddsen, sem fann þetta gamla blaðasnifsi þegar hún var að skipta um einangrun í gólfinu, var þetta mikill dýrgripur sem tengist áhugaverðri sögu afa hennar, Gunnars Thoroddsen. „Þetta voru eins og skilaboð úr fortíðinni,“ segir Vala.

„Við höfum verið að skipta um einangrun í gólfi á risinu í húsinu okkar, en það hefur aldrei verið nýtt fyrir neitt nema geymslu síðan húsið var byggt í kringum 1950. Einangrunin var að mestu úr sagi, ég var að vinna uppi í risi um páskana og moka saginu í poka þegar ég sá glitta í stafi.“

Eins og að hitta fortíðina

Stafirnir reyndust vera á blaðsíðu úr tæplega 68 ára gömlu Morgunblaði, nánar tiltekið frá 18. ágúst 1949. Þar voru auglýsingar, þar sem m.a. var verið að óska eftir stúlkum í kápusaum og Skipaútgerð ríkisins auglýsti að sala farseðla í næstu ferð skipsins Heklu til Glasgow hæfist innan tíðar. En þegar Vala sneri blaðsíðunni við rak hana í rogastans. Þar var nefnilega heilsíðuviðtal við afa hennar sem tekið var í tilefni af því að þennan dag voru 163 ár liðin frá því að Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi, en Gunnar var borgarstjóri í Reykjavík árin 1947 – 1959.

Í viðtalinu, sem Vala fann í risinu, er m.a. rætt …
Í viðtalinu, sem Vala fann í risinu, er m.a. rætt um fjármál borgarinnar og skort á húsnæði. mbl.is/RAX


Vala segir það vera skemmtilega tilviljun að hún var ein í risinu þegar hún fann síðuna, en yfirleitt er hún þar með eiginmanni sínum. „Vindurinn gnauðaði. Þetta var eins og að hitta fortíðina.“

Eina dagblaðssíðan í risinu

Síðan Vala fann síðuna hefur hún leitað að öðrum slíkum í einangruninni í gólfinu en enga aðra fundið. „Þetta er eina dagblaðssíðan sem ég hef fundið þarna uppi. Það vekur margar skemmtilegar pælingar og margir hafa lagt ýmiskonar merkingu í þennan fund. Eins og að mér hafi verið ætlað að finna síðuna, að þetta hafi verið einhverskonar skilaboð til mín eða að ég ætti eftir að búa hér lengi,“ segir Vala sem segir að sér hafi alltaf liðið einkar vel í húsinu, sem auk þess að vera heimili fjölskyldunnar hýsir líkamsræktarstöðina Kettlebells Iceland sem hún og eiginmaður hennar, Guðjón Svansson, reka í sameiningu. Alls óafvitandi að viðtal við afa hennar lúrði þar undir gólffjölum.

Borgarstjórastarfið var í uppáhaldi

Starfsferill Gunnars Thoroddsen, afa Völu, var einstaklega fjölbreyttur. Hann var fyrst kjörinn á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn 1934 og sat á þingi með hléum til 1983. Gunnar gegndi embættum fjármála-, félagsmála- og iðnaðarráðherra og var forsætisráðherra 1980-´83. Þá var hann formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins lungann af áttunda áratugnum. Auk þessara stjórnmálastarfa var Gunnar m.a. prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hæstaréttardómari og sendiherra Íslands í Danmörku.

Vala segir að afi sinn hafi eitt sinn sagt við Dóru dóttur sína, móður Völu, að borgarstjórastarfið hefði verið í uppáhaldi af öllum þeim störfum sem hann gegndi.

Í viðtalinu, sem Vala fann í risinu, er m.a. rætt um fjármál borgarinnar og skort á húsnæði, sem m.a. var tilkominn vegna mikilla flutninga fólks utan af landi. Viðfangsefni borgarstjóra hafa líklega ekki breyst jafn mikið á tæpum 70 árum og margur gæti haldið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert