Morð! og Loddararnir á uppskeruhátíð

Þrefað um listaverk í leikverkinu Loddararnir í uppsetningu Rollanna.
Þrefað um listaverk í leikverkinu Loddararnir í uppsetningu Rollanna. Ljósmyndir/Svanhildur Eiríksdóttir

Í Akurskóla og Njarðvíkurskóla hafa frá áramótum staðið yfir æfingar á tveimur ólíkum íslenskum leikverkum en skólarnir taka nú í fyrsta sinn þátt í Þjóðleik, leiklistarhátíð ungs fólks að frumkvæði Þjóðleikhússins. Lokahátíð Þjóðleiks á Suðurnesjum eða uppskeruhátíð verður haldin í 88 Húsinu í Reykjanesbæ helgina 29. og 30. apríl.

Þjóðleikur, listahátíð ungs fólks, er haldinn annað hvert ár og fer nú fram í fimmta sinn. Listahátíðin er haldin að frumkvæði Þjóðleikhússins en í samstarfi við ýmsa aðila þar sem markmiðið er að efla leiklist á landsbyggðinni, vekja áhuga ungs fólks á leiklist sem og efla læsi þess á leiklistarformið. Skilyrði er að einn fullorðinn leiði hópinn og að í hópnum séu nógu margir til að setja upp leiksýningu og séu á aldrinum 13 til 20 ára.

Verkefnið hófst á Austurlandi árið 2009 og fleiri landshlutar hafa bæst í hópinn eftir því sem Þjóðleikum hefur fjölgað. Suðurnesin eru nú með í fyrsta sinn og eru sex hópar á svæðinu sem óskuðu eftir að taka þátt. Tveir þeirra eru í Reykjanesbæ, Rollurnar í Akurskóla undir stjórn Kristínar Þóru Möller og Hin jafnréttissinnuðu og fjölfemínísku grænu ljón í Njarðvíkurskóla undir stjórn Yngva Þórs Geirssonar.

Leikhópurinn Rollurnar í leiklistarvali Akurskóla. Lengst til vinstri eru bankastjórarnir …
Leikhópurinn Rollurnar í leiklistarvali Akurskóla. Lengst til vinstri eru bankastjórarnir þrír, Ásgrímur, Tryggvi og Sigurjón. Ljósmyndir/Svanhildur Eiríksdóttir


Þjóðleik vel tekið í leiklistarvali skólanna

Þrjú leikverk voru sérstaklega skrifuð fyrir Þjóðleik og gat hver hópur valið úr þeim verkum til að æfa og setja upp í sinni heimabyggð, ásamt þátttöku í lokahátíð hvers landshluta fyrir sig. Leikverkin sem hægt var að velja úr voru Morð! Ógeðslega skemmtilegt leikverk um ömurlega niðurdrepandi hluti eftir Ævar Þór Benediktsson, Loddararnir eftir Snæbjörn Brynjarsson og Feita mamman eftir Auði Jónsdóttur. Rollurnar í Akurskóla völdu Loddarana en Hin jafnréttissinnuðu og fjölfemínísku grænu ljón völdu Morð! Blaðamaður fékk að líta inn á æfingu hjá hópunum tveimur og spjalla lítillega við leikstjórnendur og leikendur.

Hjá báðum hópum eru nemendur úr 8.-10. bekk í leiklistarvali skólanna að taka þátt í Þjóðleik. Kristín Þóra Möller tók við valinu í Akurskóla sl. haust og sagðist í samtali við blaðamann hafa verið fegin að fá þetta glæsilega verkefni upp í hendurnar þar sem hún hafði ekki reynslu í leiklist. „Atvinnuþróunarfélag Suðurnesja boðaði til fundar sl. haust með Vigdísi Jakobsdóttur og Birni Inga Hilmarssyni sem halda utan um Þjóðleik fyrir Þjóðleikhúsið. Ég mætti á þann fund fyrir hönd Akurskóla þar sem leiklistarval skólans hafði stuttu áður lent í mínum höndum vegna forfalla og mér leist strax vel á verkefnið,“ segir Kristín Þóra.

Yngvi Þór var einnig að byrja með leiklistarvalið í Njarðvíkurskóla í fyrsta sinn og fékk veður af þessu verkefni. „Ég var strax mjög áhugasamur og tilbúinn í þetta, eftir að hafa farið á kynningu,“ segir Yngvi Þór. Nemendur í leiklistarvali skólanna vissu ekki um tilvist verkefnisins þegar þau völdu leiklist í vali fyrir um ári, enda kom það ekki inn á borð skólanna fyrr en sl. haust.

Morðingjar funda á æfingu Hinna jafnréttissinnuðu og fjölfemínísku grænu ljóna …
Morðingjar funda á æfingu Hinna jafnréttissinnuðu og fjölfemínísku grænu ljóna í Njarðvíkurskóla. Hér er það saksóknarinn sem hefur orðið. Ljósmyndir/Svanhildur Eiríksdóttir


Flestir leikhópanna völdu Morð!

Auk hópanna tveggja í Reykjanesbæ taka þátt í Þjóðleik í ár leikhópur Gerðaskóla undir stjórn Vitor Hugo, Ludo undir stjórn Guðnýjar Kristínar Snæbjörnsdóttur og tveir hópar Leikfélagsins Vogastrætis undir stjórn Önnu Sólrúnar Pálmadóttur og Rakelar Rutar Valdimarsdóttur. Allir völdu hóparnir Morð! eftir Ævar Þór Benediktsson. Leikstjórar hópanna fóru á helgarnámskeið í Þjóðleikhúsinu í október þar sem farið var í grunntækni og undirstöðuatriði leikstjórnar, þeim boðið í skoðunarferð um leikhúsið og að ræða við starfsfólk og upplifa leiksýningu. Auk þess að hafa fundist námskeiðið mjög gagnlegt nefndu bæði Kristín og Yngvi hversu gott hafi verið að fá aðstoð frá reyndum þátttakendum Þjóðleiks, m.a. varðandi skipulag lokahátíðarinnar. Þar nefndi Kristín sérstaklega Magnús Jóhannes Magnússon, stjórnanda á Suðurlandi.

Í framhaldi komu Vigdís og Björn Ingi með tækninámskeið fyrir hópinn sem haldið var í Gerðaskóla í Garði. „Þar fengu krakkarnir leiðsögn frá ljósamanni og búninga- og sviðsmyndahönnuðum frá Þjóðleikhúsinu. Krakkarnir höfðu ótrúlega gaman og gott af þessu námskeiði og mættu til leiks eftir námskeiðið full af áhuga og ástríðu sem smitaðist svo út í hópinn,“ segir Kristín Þóra um reynsluna hjá Rollunum.

Sviðsmenn, ljósamenn og búningahönnuðir koma einnig úr röðum nemenda í leiklistarvali og tekur Yngvi fram að allir aðstandendur sýningarinnar séu jafn mikilvægir, hljóðmaðurinn ekki síður en aðalleikarinn. Allir vinni að því að skapa heim fyrir áhorfendann til að týna sér í. „Við erum að vinna í því núna að redda búningum, sviðsmynd og öðru tilheyrandi. Við gerum þetta allt sjálf með aðstoð nærsamfélagsins að sjálfsögðu. Við getum ekki haft þetta flókið því við þurfum að geta pakkað sýningunni saman og komið út í bíl, keyrt á næsta stað og sett hana upp þar.“

Businn strappar slátrarann í uppsetningu Morðs! í Njarðvíkurskóla og grobbar …
Businn strappar slátrarann í uppsetningu Morðs! í Njarðvíkurskóla og grobbar sig af því.


Í sama streng tekur Kristín og nefndir að hópurinn hennar sé þannig samsettur að allir séu í öllu og verkefnum hafi verið skipt á milli krakkanna eftir áhuga hvers og eins. „Það bera allir ábyrgð á sýningunni saman og ákvarðanir eru flestar teknar sameiginlega. Nemendur fá að þróa karakterinn sem þeir leika í samstarfi við mig og sjá um að hanna og útvega búninga. Við höfum að mestu leyti fengið búninga í fataskápunum heima eða fundið þá í fatabúð Rauða krossins. Sviðsmyndin er einföld þar sem leikritið nánast krefst þess að leikhúsið sjálft sé augljóst og sýnilegt.“

„Okkar lag er besta lagið“

Það var ekki flókið fyrir hópana að velja leikverk úr verkunum þremur og ekki stendur á svari: „Verkið Loddararnir eftir Snæbjörn Brynjarsson varð fyrir valinu því okkur fannst verkefnið bjóða upp á mesta möguleika og það bauð upp á hlutverk fyrir alla sem vildu leika. Það er krefjandi en mjög skemmtilegt. Það er mikill húmor í því en einnig ádeila og góður boðskapur. Það er gagnvirkt að vissu leyti þar sem áhorfendur fá að ákveða hvernig leikritið endar hverju sinni,“ segir Kristín.

„Það var tvennt sem réð úrslitum hjá okkur. Í fyrsta lagi fjöldi þátttakenda í verkunum sem voru í boði og svo lásum við verkin saman og það var samhljóða ákvörðun að taka þetta verk, Morð! Ég vildi taka verk sem nemendurnir voru spenntir að setja upp og vinna með,“ segir Yngvi.

En hvað segja börnin sjálf um þátttökuna í Þjóðleik?

„Það er mjög gaman að taka þátt í þessu verkefni og þetta er skemmtileg upplifun,“ segja þátttakendur í Akurskóla. Þau voru ánægð með valið á leikverkinu Loddarar, fannst Morð! of létt og Feita mamman of skrítið. „Þetta hljómaði skemmtilegast. Það er verið að gera grín að bankakerfi nútímans og þar kemur list við sögu. Einnig er verið að gera grín að leikhúsi. Eiginlega bara bland í poka.“

Þegar spurt er um hver sé í aðalhlutverki heyrist „ég“ úr öllum áttum, sem er í takt við uppbyggingu leikverksins, auk mikilvægis hvers og eins í sýningunni.

Í Morði í Njarðvíkurskóla eru einnig nokkur stór hlutverk þannig að aðalhlutverk er í margra höndum. „Við byrjuðum á því að lesa öll handritin og við vorum öll sammála um að velja Morð! Þetta er skemmtilegasta leikritið, fjallar um morðingja sem hittast á hópfundum og spjalla um hvernig þeir drepa fólk. Þeir eru eiginlega að grobba sig á því.“ Leikararnir voru sammála því að þetta væri skemmtilegt verkefni og legðist vel í þá. „Okkar lag verður besta lagið,“ svaraði einn nemenda um hæl, þegar blaðamaður spurði í lokin hvort ekki yrði gaman að sjá með hvaða lagi hóparnir fjórir sem völdu sama leikrit myndu setja verkið upp á lokahátíðinni.

Þjóðleikur í fyrsta sinn á Suðurnesjum

Lokahátíð Þjóðleiks á Suðurnesjum verður haldin í 88 Húsinu í Reykjanesbæ helgina 29. – 30. apríl. Þá verða leikhóparnir að hafa frumsýnt í sinni heimabyggð eða í sínum skólum. Allir hóparnir sýna leikritið sitt tvisvar svo allir hóparnir eigi möguleika á því að sjá allar sýningarnar.

Verkefnið Þjóðleikur er styrkt af Uppbyggingasjóði Suðurnesja og hjálpast allir hóparnir að við skipulagningu og framkvæmd lokahátíðarinnar. Verkefnisstjóri á Suðurnesjum er Ingibjörg Jóna Kristinsdóttir.

Þjóðleikhúsið lætur skrifa sérstaklega þrjú verk fyrir Þjóðleik. Skipuleggjendur telja að skortur á vönduðum styttri leikverkum fyrir ungt fólk sé orsök þess að skólar setja sjaldan upp leiksýningar.

Þátttaka og áhugi ungmenna á landsbyggðinni á leiklist hefur aukist jafnt og þétt frá því Þjóðleikur hófst árið 2009. Verkefnið er haldið annað hvert ár, síðan 2011, 2013, 2015 og nú 2017. Sýningarréttur á verkunum og námskeið eru þátttakendum í verkefninu að kostnaðarlausu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert