Spurði út í lögmæti Klíníkur

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.
Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. mbl.is/Ómar Óskarsson

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, að því á Alþingi hvort hann telji rekstur Klíníkurinnar í Ármúla lögmætan á sama tíma og landlæknir segi að leyfi skorti fyrir starfseminni.

Velferðarráðuneytið og Embætti landlæknis greinir á um túlkun á heilbrigðislögum hvað varðar starfsemi Klíníkurinnar. Birgir Jakobsson, landlæknir, segir að Klíníkin þurfi leyfi ráðherra fyrir fimm daga legudeild. Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, er ekki sammála þessu og segir starfsemi Klíníkurinnar falla undir samning Sjúkratrygginga Íslands og sérfræðilækna og ekki þurfa sérstakt leyfi.

Frétt mbl.is: Boðar breytingar á einkarekstri

„Ef þessi afstaða ráðherra stenst lög er komið upp á Íslandi tvöfalt heilbrigðiskerfi,“ sagði Svandís og spurði Benedikt jafnframt hvort hann sé ánægður með þessa þróun og hvort hann hafi tekið þátt í að búa til kerfið sem nú er stuðst við.

Einnig spurði hún hvort ótakmarkað fjármagn geti runnið í einkageirann.

Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra.
Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Árið 2008 þegar lög um sjúkratryggingar voru sett sat ég ekki á þingi og átti ekki hlut í því að setja þau lög. Ég sat hins vegar í stjórn Sjúkratrygginga Íslands,“ svaraði Benedikt og bætti síðar við: „Í þessari deilu landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins er ég ekki dómbær til að skera úr um hvað er hið rétta í málinu.“

Hann tók fram að Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt fyrir margvíslega starfsemi einkalækna og einkarekinna stöðva sem taka á móti sjúklingum. „Ég veit ekki betur en að sjúklingar hafi fengið góðan bata þar og ég tel að það sé jákvætt fyrir sjúklinga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert