Afmælisveisla Lærlinga

Bikarmeistarar 2017. Lærlingar bættu einum titli við safnið nýverið. Frá …
Bikarmeistarar 2017. Lærlingar bættu einum titli við safnið nýverið. Frá vinstri á myndinni eru þeir Árni Gíslason liðsstjóri, Freyr Bragason, Guðlaugur Valgeirsson og Skúli Freyr Sigurðsson.

Lærlingar, eitt sigursælasta keilulið landsins, er 30 ára um þessar mundir og af því tilefni standa félagsmenn fyrir opnu húsi á Marbar við Geirsgötu í Reykjavík laugardagskvöldið 13. maí næstkomandi.

Keiluhöllin í Öskjuhlíð var opnuð 1985 og í kjölfarið hófst keppni í íþróttinni. Árni Gíslason, einn stofnfélaga Lærlinga og nú liðsstjóri, segir að vinnufélagar hjá Hagkaupi hafi tekið þátt í fyrirtækjakeppni 1987 undir nafninu Lærlingar og staðið sig vel. Um haustið hafi verið mynduð þrjú lið í fyrirtækinu og þau hafið keppni í 3. deild. Lærlingar séu einir eftir, en þeir hafi fyrst orðið Íslandsmeistarar 1992, árið sem Keilusamband Íslands var stofnað. „Þetta er alltaf jafngaman og erfitt að slíta sig frá keppninni,“ segir hann.

Íslandsmeistarar 1992-1994 og bikarmeistarar 1994. Aftari röð frá vinstri: Jón …
Íslandsmeistarar 1992-1994 og bikarmeistarar 1994. Aftari röð frá vinstri: Jón Helgi Bragason, Snæbjörn Óli Jörgensen og Árni Gíslason. Fremri röð frá vinstri: Valgeir Guðbjartsson, Freyr Bragason og Stefán Ingi Óskarsson.


Freyr Bragason varð bikarmeistari í fimmta sinn með Lærlingum á dögunum, en hann er eini leikmaðurinn, sem hefur leikið með liðinu frá byrjun. Hann segir að fyrstu tvö árin í 1. deild hafi verið erfið, en eftir að hafa fengið mjög sterkan leikmann í hópinn, Valgeir Guðbjartsson, hafi liðið sprungið út. „Við urðum fimm sinnum Íslandsmeistarar á sex árum,“ rifjar hann upp.

Aðstöðuleysi

Eins og gengur hafa skipst á lægðir og hæðir hjá Lærlingum undanfarna þrjá áratugi. „Eftirminnilegasti titillinn er þegar við urðum Íslandsmeistarar árið 2000 eftir að hafa unnið KR í úrslitum með minnsta mögulega mun,“ segir Freyr. „Það var gríðarlega spennandi leikur.“

Mikil endurnýjun hefur verið í hópnum en aldrei hefur hvarflað að Frey að hætta. „Ég held áfram á meðan ég get eitthvað og kemst í liðið,“ segir hann og bætir við að ekkert mál sé að aðlagast nýjum félögum. „Keilusamfélagið er svo fámennt að allir þekkja alla.“

Eftir nokkra lægð segir Freyr að keilumenn séu að ná vopnum sínum á ný en aðstöðuleysi hái íþróttinni. Í Reykjavík sé aðeins hægt að stunda keilu í Egilshöll og þar sem um vinsæla almenningsíþrótt sé að ræða sé erfitt fyrir keppnismenn að komast að. Auk þess eigi að loka salnum á Akureyri 1. maí, en þrjár brautir séu á Akranesi.

Lærlingar á æfingu.
Lærlingar á æfingu.


Deildakeppninni lýkur á laugardag og þá tekur úrslitakeppnin við. Lærlingar hafa enn einu sinni tryggt sér sæti í úrslitum en þeir hafa átta sinnum orðið Íslandsmeistarar liða, sjö sinnum Íslandsmeistarar í tvímenningi liða og átta sinnum orðið meistarar meistaranna.

Afmælisveislan verður kl. 18-22 13. maí og geta áhugasamir skráð þátttöku í síma 6189413 (sms) eða með tölvupósti (arnig@islandia.is).

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert