Heimilisofbeldi, innbrot og dóp

mbl.is/Brynjar Gauti

Einn var handtekinn af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við heimilisofbeldi í nótt. Nokkrir ökumenn reyndust annaðhvort dópaðir eða drukknir undir stýri og eins var brotist inn á frístundaheimili. Þetta er meðal verkefna sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var að kljást við í gærkvöldi og nótt.

Skömmu eftir miðnætti handtók lögreglan mann í austurhluta Reykjavíkur í tengslum við heimilisofbeldismál og er hann vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Síðdegis í gær stöðvaði lögreglan för bifreiðar, sem tilkynnt hafði verið um stuld á, í Kópavogi. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa stolið bifreiðinni, auk þess sem hann var undir áhrifum fíkniefna og var með fíkniefni á sér. Hann er sviptur ökuréttindum en hefur ítrekað verið stöðvaður undir stýri þrátt fyrir það. Hann er vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Skömmu síðar stöðvaði lögreglan bifreið á Vífilsstaðavegi en ökumaður hennar var undir áhrifum áfengis og án ökuréttinda. 

Á áttunda tímanum í gærkvöldi var ökumaður stöðvaður á Víkurvegi en hann var undir áhrifum fíkniefna og var vopnaður. 

Lögreglan stöðvaði á tíunda tímanum í gærkvöldi bifreið á Miklubraut vegna hraðaksturs. Í ljós kom að ökumaðurinn var í vímu, annaðhvort áfengis og eða af örvandi/deyfandi lyfi. Farþegi í bifreiðinni var með fíkniefni í fórum sínum.

Tilkynnt var um innbrot í frístundaheimili við Safamýri á þriðja tímanum í nótt. Þaðan var stolið flatskjá, tölvu og fleiri munum. 

Um fimm í nótt var tilkynnt um mannaferðir á lokuðu athafnasvæði fyrirtækis við Skútuvog. Lögreglan handtók ungt par á staðnum en það var búið að setja hluti í töskur þegar lögregla kom á vettvang. Þau gista fangageymslur lögreglu vegna rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert