Ófullnægjandi aðgengi árum saman

Heilsugæslustöðvarnar eru langt frá settu markmiði um biðtíma.
Heilsugæslustöðvarnar eru langt frá settu markmiði um biðtíma. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Af fimmtán heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur engin náð því markmiði síðustu ár að veita 85% þeirra sem óska eftir læknisviðtali tíma innan tveggja virkra daga.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um Heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu, þar sem segir m.a. að aðgengi að þjónustu Heilsugæslunnar hafi verið ófullnægjandi árum saman.

Í skýrslunni segir að árangur stöðvanna sé þó misgóður og að skjólstæðingar Heilsugæslunnar á Seltjarnarnesi og í Vesturbæ hafi að jafnaði haft betra aðgengi að læknisþjónustu á dagtíma en íbúar annarra bæjarhluta.

Þótt sumar heilsugæslustöðvar hafi bætt sig nokkuð undanfarið ár séu flestar enn langt frá settu markmiði.

„Ófullnægjandi aðgengi að þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur m.a. valdið því að almenningur leitar iðulega á bráðamóttöku Landspítala með erindi sem Heilsugæslan gæti leyst. Þetta er í andstöðu við það markmið laga að heilbrigðisþjónusta sé ávallt veitt á viðeigandi þjónustustigi. Jafnframt hefur þetta leitt til aukins heildarkostnaðar í heilbrigðiskerfinu, slæmrar nýtingar á tíma sérhæfðs fagfólks sem skortur er á og takmarkaðs aðgengis að þjónustu þess,“ segir í skýrslunni.

Yfirstjórnin veiti ekki nægt aðhald

Á tímabilinu 2007-2016 jukust fjárframlög til Heilsugæslunnar um 3% að raunvirði þótt íbúum svæðisins fjölgaði um 11%. Á sama tíma jukust útgjöld vegna sérgreinalækninga um 57% að raunvirði vegna aukinnar þjónustu þeirra, að því er fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Heilsugæslan á, lögum samkvæmt, að vera fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu.
Heilsugæslan á, lögum samkvæmt, að vera fyrsti viðkomustaðurinn í heilbrigðiskerfinu. AFP

Stofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að yfirstjórn Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu veiti einstökum stöðvum ekki nægt aðhald hvað varðar kostnað og skilvirkni en síðast var unnin ítarleg kostnaðargreining fyrir stöðvarnar árið 2013.

„Þá var árlegur rekstrarkostnaður þeirrar stöðvar þar sem hann var hæstur um 68% hærri en þar sem hann var lægstur miðað við fjölda heimsókna eða ígildi þeirra. Stöðvarnar starfa þó allar innan sama kerfis og búa við svipuð rekstrarskilyrði.“

Hagsmunaárekstrar vegna Læknavaktarinnar?

Í skýrslunni er víða komið við og m.a. fjallað um mögulega hagsmunaárekstra sem upp geta komið þegar læknar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins starfa á Læknavaktinni ehf. og eru hluthafar þar.

„Slíkir árekstrar gætu aukist með nýju fjármögnunarkerfi sem tók gildi 1. janúar 2017. Samkvæmt því færist fé frá heilsugæslustöðvum til Læknavaktarinnar ef skjólstæðingar þeirra leita þangað. Þess má líka geta að læknar hjá Heilsugæslunni hafa fengið sérstakt helgunarálag sinni þeir ekki launuðu aukastarfi. Dæmi eru þó um að þeir séu á sama tíma starfsmenn Læknavaktarinnar,“ segir í skýrslunni.

Þessu hefur Heilsugæslan svarað og bendir á að stjórnvöld hafi ákveðið umrætt fyrirkomulag með kjarasamningum.

„Sjúkratryggingar Íslands hafa, í umboði velferðarráðuneytis, samið við einkafyrirtækið Læknavaktina um að sinna þjónustu eftir kl. 17:00 á daginn og um helgar. Vandséð er hvernig þeirri þjónustu verði sinnt án aðkomu lækna HH,“ segir í viðbrögðum Heilsugæslunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert