Samstarfsörðugleikar hamla starfseminni

Í könnun SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, um starfsánægju árið 2016 …
Í könnun SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu, um starfsánægju árið 2016 lenti Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu í 134. sæti af 142 stofnunum og í 70. sæti af 76 stofnunum þegar horft var til stofnana með 50 starfsmenn eða fleiri. mbl.is/Árni Sæberg

Samstarfsörðugleikar innan yfirstjórnar Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu hafa haft langvarandi og hamlandi áhrif á starfsemi Heilsugæslunnar. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar, þar sem velferðarráðuneytið er gagnrýnt fyrir að grípa ekki fyrr til aðgerða.

Umrædd skýrsla fjallar um rekstur Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu en Ríkisendurskoðun komst að þeirri niðurstöðu að Heilsugæslan stæði ekki að öllu leyti undir því markmiði laga um heilbrigðisþjónustu að vera fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

Í skýrslunni er fjallað um ýmsar hliðar starfseminnar en í sérstökum undirkafla sem ber heitið Samskiptavandi innan yfirstjórnar kemur fram að við gerð skýrslunnar hafi Ríkisendurskoðun fengið ábendingar um að langvarandi samskipta- og stjórnunarvanda hefði gætt innan framkvæmdastjórnar Heilsugæslunnar.

Þar segir einnig að stofnuninni hefði jafnframt verið greint frá því að velferðarráðuneytið hefði ítrekað verið upplýst um „þessi mál“ frá 2011, þegar yfirlæknar heilsugæslustöðva lýstu yfir vantrausti á forstjóra stofnunarinnar og komu sjónarmiðum sínum á framfæri við starfsmenn ráðuneytisins og ráðherra.

„Í framhaldi af þessu dró verulega úr samskiptum forstjóra og yfirlækna og voru þau í lágmarki næstu árin. Áður höfðu þessir aðilar fundað reglulega,“ segir í skýrslunni.

Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu rekur 15 heilsugæslustöðvar.
Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu rekur 15 heilsugæslustöðvar. mbl.is

Óháður aðili fenginn til að gera úttekt á vandanum

Ríkisendurskoðun sendi velferðarráðuneytinu fyrirspurn um málið í mars sl. og fékk þau svör að ráðuneytið hefði þegar gert ráðstafanir um að óháður aðili gerði úttekt á samskiptavandanum innan yfirstjórnar Heilsugæslunnar.

„Það hefði verið gert vegna þess að ráðuneytinu hefðu borist ábendingar um að slíkur vandi væri til staðar og hefði verið um nokkurn tíma. Því miður hefði orðið dráttur á verkefninu en viðtöl væru þó hafin við hlutaðeigendur.“

mbl.is hefur óskað eftir því við velferðarráðuneytið að fá afrit af svörum ráðuneytisins við fyrirspurn Ríkisendurskoðunnar.

Í skýrslunni er einnig greint frá því að í desember sl. hefði umboðsmaður Alþingis komist að þeirri niðurstöðu að áminning sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins veitti yfirlækni hjá stofnuninni í október 2015 hefði ekki verið í samræmi við lög.

„Vegna þess máls ritaði 21 starfsmaður Heilsugæslunnar forstjóra bréf í október 2015 þar og lýsti yfir fullum stuðningi við umræddan yfirlækni,“ segir í skýrslunni.

Líkt og fyrr segir kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að ofangreindir samstarfsörðugleikar hafi haft langvarandi og hamlandi áhrif á starfsemi Heilsugæslunnar. Þá er velferðarráðuneytið hvatt til að læra af reynslunni.

„Þegar bæta þarf rekstur stofnunarinnar jafn mikið og raun ber vitni er nauðsynlegt að framkvæmdastjórn hennar geti stutt og hvatt starfsfólk einstakra heilsugæslustöðva við að gera nauðsynlegar breytingar á starfseminni. Vegna þessa hvetur stofnunin velferðarráðuneyti til að fylgja þessum málum vel eftir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert