Telur um áreiti að ræða en ekki einelti

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hafið er yfir allan vafa að Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, hafi brotið gegn lögreglumanni með hegðun sinni í garð hans. Þetta er niðurstaða vinnustaðasálfræðings sem innanríkisráðuneytið fékk til þess að fara yfir kvörtun lögreglumannsins. Hins vegar væri ekki um einelti að ræða heldur áreiti.

Fram kemur á fréttavef Ríkisútvarpsins að vinnustaðasálfræðingurinn hafi verið kallaður til í september og hafi hann bæði rætt við lögreglumanninn og Sigríði Björk. Hann hafi síðan skilað af sér skýrslu um miðjan febrúar. Þar séu tilgreind tólf atvik og að í þremur þeirra hefði verið brotið gegn lögreglumanninum af hálfu lögreglustjórans. Hinum var vísað frá.

Sigríður Björk hafi í einu þessara tilvika ávítt lögreglumanninn með hávaða og æsingi og ekki hlustað á hann. Í öðru tilviki hafi hún sagt að lögreglumaðurinn gæti ekki lengur gegnt stöðu lögreglufulltrúa innan miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar og í því þriðja ákveðið að lögreglumaðurinn færi ekki á lögreglunámskeið í Búdapest í Ungverjalandi sem lögreglumaðurinn hafi átt að sækja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert