Úthluta 8,2 milljónum króna

Ljósmynd/UMFÍ

Rúmum 8,2 milljónum króna verður úthlutað úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFí í maí. Í tilkynningu frá UMFÍ segir að sjóðurinn hafi þann tilgang að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar, m.a. með því að auka menntun og þekkingu á íþróttagreinum meðal félaga innan hreyfingarinnar og þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi. 

Meðal þeirra verkefna sem hljóta styrk eru sameiginlegt átaksverkefni golfklúbbanna Mostra, Vestarr, Jökuls og Hamars og styrkur til Ungmennafélags Skipaskaga á Akranesi í tengslum við hreyfingu eldri borgara. Ungmennasamband Vestur-Húnvetninga fékk sömuleiðis styrk í tengslum við heilsuvakningu eldri borgara. Þá fékk HK styrk vegna foreldrafundar um verkefnið Sýnum karakter, sem er samstarfsverkefni UMFÍ og ÍSÍ.

Úthlutun úr Fræðslu- og verkefnasjóði UMFÍ fer fram tvisvar á ári, yfirleitt í kringum 1. maí og 1. nóvember ár hvert að því er segir í tilkynningu UMFÍ.

Ljósmynd/UMFÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert