Ákærður fyrir sérstaklega hættulega árás

Húsnæði embættis Héraðssaksóknara.
Húsnæði embættis Héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa í nóvember 2011, á umferðarljósum á Reykjanesbraut neðan við Byko í Breiddinni, veist að öðrum manni. Sló hann manninn nokkrum hnefahöggum í andlitið og sparkaði ítrekað í andlit hans og höfuð þannig að fórnarlambið fékk sár sem þurfti að sauma saman, brot á hægri augntóft, nefbeinsbrot auk þess sem tennur brotnuðu.

Tvö börn fórnarlambsins voru í bílnum og urðu vitni að árásinni, en þau voru 11 og 17 ára þegar árásin átti sér stað.

Krefst saksóknari þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu sakarkostnaðar. Maðurinn sem varð fyrir árásinni fer þá fram á 2 milljónir í miskabætur auk þess að fá greiddar 2,2 milljónir vegna kostnaðar við tannviðgerðir.

Fyrir hönd barnanna tveggja er farið fram á 1,5 milljónir til hvors þeirra í þjáningar- og miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert