Hitinn fór hæst í 17 gráður

Höfn í Hornafirði.
Höfn í Hornafirði. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þó hlýtt hafi verið og milt í veðri víða í dag er sumarið þó ekki komið. „Við verðum nú að bíða eftir vorinu fyrst,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, spurður hvort sumarið sé að bresta á. Hæst fór hitinn í 17 gráður á Hvítskerjum og hlýtt var víða fyrir austan, 16,2 gráður mældust á Höfn í Hornafirði og svipaður hiti mældist einnig á Fáskrúðsfirði. Þá fór hiti víðar yfir 10 gráður fyrir austan í dag.

„Það hlýnar svolítið í næstu viku þannig að það verður svona vorlegt alla veganna þegar komið er fram í vikuna,“ segir Þorsteinn. Á það við meira og minna um allt land en búast má við smá vetrarskelli aftur á morgun eða hinn, jafnvel einhverri snjókomu eða slyddu eftir hádegi.

„Það er búið að vera mjög fínt veður í dag og hlýtt […] það er búið að vera mjög bjart þarna fyrir austan, Austfjörðum og Suðausturlandi,“ segir Þorsteinn, en aprílmánuður hefur verið í kaldara lagi. Þó koma einstaka hlýir og góðir dagar inn á milli þó sjaldgæfir séu að sögn Þorsteins

Í fyrramálið byrjar að rigna á Suðvesturlandi og svo víðar um land eftir sem líður á daginn, sem jafnvel gæti færst yfir í snjókomu eða slyddu, alla veganna til fjalla, eftir hádegi á morgun og snjóað gæti í byggðum um kvöldið. „Þannig að þetta verður svolítið svona kuldalegt veður aftur,“ segir Þorsteinn.  Á föstudag verður svalt áfram og gæti snjóað en lagast á sunnudag. „Kannski fer að vora þá,“ segir Þorsteinn.

„Við skulum bara vona að veðrið haldist eitthvað í næsta mánuði, það geta komið hvellir líka að norðan og kuldi líka í maí, það getur snjóað líka í maí.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert