Sjúklingar hafa ekki efni á að bíða

Krabbameinssjúklingar hafa ekki efni á að bíða eftir nýjum lyfjum, …
Krabbameinssjúklingar hafa ekki efni á að bíða eftir nýjum lyfjum, að sögn formanns Krafts. mbl.is/Eggert

„Krabbameinssjúklingar hafa ekki efni á að bíða. Þeir lifa í núinu og vita ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég vil ekki trúa því að loforð [heilbrigðis]ráðherra um að finna fjármagn til að kaupa ný lyf fyrir krabbameinssjúklinga verði ekki efnt,“ segir Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts.

Læknar geta ekki ávísað nýjum krabbameinslyfjum til skjólstæðinga sinna því ekki er fjárheimild fyrir þeim. Ragnheiður birtir færslu á Facebook þar sem aðstandandi lýsir samskiptum sínum við krabbameinslækni á Landspítalanum en hann fór með móður sinni í lyfjagjöf og í viðtal þar sem þetta kom fram.

Ragnheiður bendir á að þetta er nákvæmlega sama staða og var í fyrra. Þá voru loforð uppi um að keypt yrðu ný krabbameinslyf sem var gert. „Vonandi þarf þessi sama umræða um að kaupa ný lyf ekki alltaf að eiga sér stað á hverju ári,“ segir Ragnheiður. 

Hún vísar meðal annars til laga um réttindi sjúklinga en samkvæmt þeim eiga þeir rétt á bestu mögulegu læknisþjónustu sem völ er á hverju sinni. 

„Við vitum að heilbrigðisráðherra er að gera allt sem hann getur og við bindum vonir við að hann lagi þetta. Við viljum sjá þessa hluti í höfn. Okkar skoðun er sú að líf og heilsa fólks á alltaf ganga fyrir. Þetta er ekki flókið,“ segir Ragnheiður. 

Verður fé veitt í kaup á nýjum krabbameinslyfjum?

Svandís Svavarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram fyr­ir­spurn til heil­brigðisráðherra um kaup á nýj­um krabba­meins­lyfj­um í dag. Þar spyr hún hvort fyr­ir­heit rík­is­stjórn­ar­inn­ar frá því í fe­brú­ar hafi verið efnd um að fé yrði veitt til kaupa á nýj­um krabba­meins­lyfj­um.

Einnig spyr hún hve miklu fé verður varið til kaupa á nýj­um krabba­meins­lyfj­um á þessu ári.

Sömu­leiðis ósk­ar hún eft­ir svör­um við því hve marg­ir sjúk­ling­ar munu eiga þess kost að fá ný krabba­meins­lyf og hvenær þau verða til­tæk. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert