„Verulega safarík“ ákvæði í samningi

Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata.
Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata, spurði Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, ráðherra ferðamála út í „verulega safarík“ ákvæði um afslætti og ívilnanir í samningi sem ríkið gerði við United Silicon árið 2014.

„Þessi samningur var í ljósi sögunnar kannski ekkert sérstaklega magnaður fyrir íbúana í Reykjanesbæ en hann var þeim mun magnaðri fyrir þá sem eiga United Silicon," sagði Einar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. 

Hann greindi frá því að í samningnum komi fram að tekjuskattur sem fyrirtækið þarf að inna af hendi sé 15% lægri en gengur og gerist, almennt tryggingagjald 50% lægra, fasteignaskattur 50% lægri og gatnagerðargjald 30% lægra.

Kísilmálmsmiðja United Silicon.
Kísilmálmsmiðja United Silicon. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Einar vísaði í sjöundu grein samningsins þar sem kemur fram að hámark styrkhæfrar ríkisaðstoðar samkvæmt ákvæðum samningsins skuli vera 484,8 milljónir króna, eða um 506 milljónir króna að núvirði.

„Ég leyfi mér að spyrja hæstvirtan ráðherra, hversu háar upphæðir er hér um að ræða hingað til af þessum 506 sem United Silicon hefur hlotið í ívilnanir?“

Þórdís Kolbrún steig þá í pontu og sagðist ekki vita hver talan er. Biðlaði hún til Einars að senda óformlegt erindi til hennar eða ráðuneytis hennar vegna málsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert