Endurbætur að hefjast á Hótel Sögu

Ingibjörg segir að Hótel Saga sé miðsvæðis í menningarsamfélagi sem …
Ingibjörg segir að Hótel Saga sé miðsvæðis í menningarsamfélagi sem farivaxandi í Vesturbænum, meðal annars með fjölgun veitingastaða og kaffihúsa mbl.is/Eggert

Hafist verður handa við endurnýjun á alrýmum á fyrstu og annarri hæð Hótels Sögu í maí. Sérstök virðing verður borin fyrir sögu hótelsins sem í ár fagnar 55 ára afmæli. Bændasamtökin hafa átt hótelið frá upphafi og er stefnt að því að styrkja þau tengsl enn fremur með því að efla matarstefnuna „frá býli á borð“, að sögn Ingibjargar Ólafsdóttur hótelstjóra.

„Það var vandað vel til verka við hönnun hótelsins árið 1962 og við sækjum innblástur frá henni. Halldór H. Jónsson, arkitekt hússins, lét m.a. hanna alla stóla í húsinu og sem betur fer eigum við nokkur frumeintök sem verið er að smíða eftir. Skipulagi á jarðhæð verður breytt og Súlnasalurinn fær tímabæra andlitslyftingu. Hringlagið á húsinu fær betur að njóta sín sem og birtan að utan,“ segir Ingibjörg.

Framkvæmdum verður skipt í tvennt, fyrra skrefið er eldhúsið, Súlnasalur og ný gestamóttaka og standa vonir til að því ljúki snemma í vetur. Þá hefjast framkvæmdir við seinni helminginn, Mímisbar, nýjan veitingastað og setustofu, og allt komið í notkun snemma vors 2018.

Endurnýjun á herbergjum er hafin, 27 ný herbergi voru tekin í notkun í júlí 2016 og 54 herbergi verða tilbúin fyrir sumarið og svo verður haldið áfram í haust. Herbergjafjöldinn er þar með kominn upp í 236.

Gestir vilja meira en gistingu

„Gestirnir okkar vilja meira en bara gistingu, þeir hafa áhuga á sögu landsins og staðarháttum. Eignarhaldið er líka einstakt, fyrir utan matinn gefur það skemmtileg tengsl við sveitina og náttúruna. Okkur langar til að segja þessa sögu. Menningarsamfélagið í Vesturbænum er líka fjölbreytt og fer vaxandi: Hið íslenska bókmenntafélag flytur inn í Bændahöllina í maí, nývígð Veröld, Hús Vigdísar, Borðið og Kaffi Vest svo eitthvað sé nefnt. Við erum miðsvæðis í þessu samfélagi og erum ákaflega ánægð með þessa granna og alla hina. Og vonum að þeir komi til okkar og njóti þess sem við höfum upp á að bjóða,“ segir hún.

Ingibjörg er uggandi yfir fyrirhugaðri hækkun á virðisaukaskatti á hótelgistingu. Sterkt gengi og launahækkanir lækka framlegðina. „Verðin fyrir 2018 hafa verið gefin út og voru hækkuð vegna gengisins svo umtalið um þessa hugsanlega fyrirhuguðu skyndilegu hækkun hefur haft neikvæð áhrif. Það er samdráttur nú þegar frá Evrópu og Skandinavíu þótt aðrir markaðir virðist hafa meira þol í bili. Meðallengd gistingar hefur lækkað úr 3,5 dögum í 2,5 sem er líka merki þess að gestir eru að halda að sér höndum og tíðari herbergjaskipti kalla á fleira starfsfólk. Eigendur og stjórnendur hótelsins eru engu að síður bjartsýnir og hlakka til að endurnýja Sögu til næstu 55 ára,“ segir Ingibjörg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert