Flugstöðin var gerð af glæsibrag

Flugstöðvarbyggingin teygir anga sína orðið víða eftir fjölda viðbygginga, en …
Flugstöðvarbyggingin teygir anga sína orðið víða eftir fjölda viðbygginga, en þrjátíu ár eru nú í apríl síðan fyrsti hluti hennar var vígður. mbl.is/RAX

Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli er orðin rúmlega þrefalt stærri en þegar hún var vígð 14. apríl 1987. Þá var flugstöðin 22 þúsund fermetrar en nú, með yfirstandandi stækkun sem verður tekin í notkun síðar á árinu, verður flugstöðin orðin 73.000 fermetrar, stærsta mannvirki á Íslandi sem opið er almenningi, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Stækkunin er ekki að ástæðulausu, farþegafjöldinn hefur margfaldast. Árið 1987 fóru 748.774 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll, þeir voru rétt rúm milljón tíu árum síðar, jafn margir og er spáð að komi bara í júlí í ár, og árið 2007 voru þeir orðnir 2.429.144. Í ár er því spáð að 8.748.875 farþegar fari í gegnum flugstöðina og er það 28% aukning frá því í fyrra þegar tæplega 7 milljónir farþega fóru þar í gegn. Það ár var metár í aukningu farþega þegar þeim fjölgaði um 40,3% frá árinu á undan. Flugfélögunum hefur líka fjölgað sem flytja farþegana til Íslands. Í upphafi voru flugfélögin bara tvö sem nýttu sér Keflavíkurflugvöll, Flugleiðir og Arnarflug, en núna fljúga 12 flugfélög til Keflavíkur allt árið og 26 yfir sumartímann. Það eru þó enn tvö íslensk flugfélög, Icelandair og WOW-air, sem nýta flugvöllinn mest með stórauknu farþegaflugi, meðal annars vegna tilkomu fleiri breiðþotna.

Unnið er að því að breikka hluta landgangsins.
Unnið er að því að breikka hluta landgangsins. mbl.is/RAX

Hætta ekki að stækka

„Það eru Íslendingar sem búa til þennan markað, ekki erlend lágfargjaldaflugfélög sem eru að koma með í mesta lagi 20% af farþegunum. Það eru þessi tvö heimafélög okkar sem eru að keyra þetta áfram sem er gríðarlega jákvætt,“ segir Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia. „Ef flugfélögin ætla að halda áfram að stækka á þann hátt sem þau eru að stækka núna þá er alveg ljóst að við þurfum að stækka flugstöðina enn frekar. Í þjónustusamningi okkar við ríkið er tekið fram að við eigum að taka tillit til þess að stækka ef notendur þurfa þess. Við hættum aldrei að stækka og munum byggja á hverju ári fyrir milljarða, við erum með plön varðandi það til 2023,“ segir Björn.

Í flugheiminum þykir 3 til 7% aukning á milli ára í farþegafjölda eðlileg og jákvæð á meðan aukningin í Leifsstöð hefur verið frá 20 til 40% síðustu ár. „Í fyrra tókum við aukningu á einu ári sem aðrir flugvellir taka á tíu árum,“ segir Björn.

Um 150 iðnaðarmenn vinna nú hörðum höndum að því að …
Um 150 iðnaðarmenn vinna nú hörðum höndum að því að koma viðbyggingunni í gagnið. mbl.is/RAX

Vex aðeins of hratt

Vegna þessarar farþegaaukningar hefur framkvæmdum á flugvellinum verið flýtt og er nú verið í framkvæmdum sem talið var fyrir nokkrum árum að ekki þyrfti að fara í fyrr en 2023, að sögn Guðmundar Daða Rúnarssonar, framkvæmdastjóra tækni- og eignasviðs Isavia. „Það var búið að stilla upp byggingaráætlun en svo kemur hvellur í aðsókn ferðamanna, sem er frábært fyrir tekjumyndun félagsins en býr óhjákvæmilega til vandamál í flugstöðvarbyggingunni og á brautarkerfinu. Þetta er að vaxa örlítið of hratt svo við getum haldið í við það. Það er áskorun að eiga við aukninguna á meðan við stöndum í miklum framkvæmdum og breytingum á flugstöðinni og í þjónustunni. Við erum búin að vera að byggja núna stanslaust í nánast fimm ár en samt virðist fólk ekki taka eftir því hvað er búið að gera mikið, því stækkunin fyllist strax,“ segir Guðmundur Daði.

Meðal þeirra framkvæmda sem hefur verið flýtt er að leggja fjarstæði til að taka við flugvélum, leggja þjónustuveg milli flughlaða, stækka landamærasal suðurbyggingar, stækka farangursflokkara, stækka vörumóttöku og komufæriband og fjölga bílastæðum, en á síðustu mánuðum hefur verið bætt við yfir 450 bílastæðum við flugstöðina.

Flugstöðin hjarta vallarins

Björn segir að enginn hafi getað séð fyrir sér þennan farþegafjölda fyrir 30 árum síðan þegar flugstöðin var vígð, hún sé nú orðin alþjóða skiptistöð á milli heimsálfa. „Hlutirnir voru gerðir af glæsibrag strax í upphafi, flugstöðin var byggð af stórhug og er því ennþá hjartað á flugvellinum þrátt fyrir allar viðbyggingarnar. Kannanir sýna að fólki hefur alltaf fundist gott að koma inn í flugstöðina og ég held að okkur hafi tekist að halda í stemninguna sem er að koma inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fara til útlanda.

Það hafa auðvitað orðið miklar breytingar á þessum tíma sem gera það að verkum að við getum aldrei orðið eins og í gamla daga en ég held að við séum að horfa á spennandi framtíð hér á flugvellinum, ekki bara fyrir okkur heldur allt nærsamfélagið. Áhrif uppbyggingarinnar á vellinum hafa gjörbreytt samfélaginu á Suðurnesjunum,“ segir Björn.

Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs, Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi …
Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri tækni- og eignasviðs, Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi og Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia. mbl.is/RAX

150 iðnaðarmenn á fullu

Nú er verið að leggja lokahönd á 7000 fermetra viðbyggingu sem opnar að hluta í vor. Björn segir að með tilkomu hennar verði flugstöðin betur í stakk búin til að takast á við hlutverk sitt. „Ég segi að í ár, þegar þetta er búið, verðum við komin með ansi gott kerfi sem mun duga okkur og við getum verið í þokkalegri ró í nokkur ár á meðan við erum að breyta og byggja nýjar viðbyggingar,“ segir Björn.

Um 150 manns vinna nú við nýjustu viðbygginguna, um 60 til 70% þeirra eru erlendir starfsmenn, að sögn Páls Svavars Pálssonar deildarstjóra verkfræðideildar. Sú bygging var byggð utan um hluta gamla landgangsins, hann var síðan rifinn innan úr og sá nýi tekinn í notkun 12. apríl, byggður á gömlu gönguleiðinni. Hluti hans er þó aðeins kominn í notkun því hann breikkar frá 7,5 m upp í 27,5 m og er eftir að opna breikkunina, sem stefnt er að um miðjan maí. Í nýju byggingunni verða m.a. tvö brottfararhlið sem voru flutt þangað, þá verður svæði fyrir farþega, ný Fríhöfn flytur þangað, auk landamærasalar, lögreglustöðvar og Saga Lounge hjá Icelandair sem verður um helmingi stærra en fyrra Saga Lounge, það á að opna um miðjan maí.

Eins og 18 fótboltavellir

Iðnaðarmenn eru að störfum út um alla bygginguna og hljóðið í mönnum er létt. Það er ótrúlegt til þess að hugsa þegar gengið er um bygginguna að hluti hennar eigi að opna í byrjun júní; stillansar, berir veggir og loft sem allskonar snúrur hanga niður úr benda til þess að það verði tæpt. En í flugstöðinni er unnið hratt og vel og á Páli Svavari og Guðmundi Daða er ekki að heyra stress þó áætlunin sé ströng. „Byggingin verður að fullu tilbúin í nóvember en við munum byrja að nota hluta hennar í júní, við verðum að gera það vegna farþegafjöldans. Þetta hefur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir óheyrileg flækjustig því við erum alltaf með farþegastrauminn og þurfum að flytja hann. Við þurfum líka að gæta að því að vinnan og hávaðinn sé ekki að trufla reksturinn, það gengur vel og fólk er mjög umburðarlynt,“ segir Páll Svavar.

Það eru ekki aðeins framkvæmdir inni í flugstöðvarbyggingunni, fyrir utan má líka sjá iðnaðarmenn og stórar vélar að störfum. Verið er að leggja fjögur breiðþotustæði, samanlögð á stærð við átján fótboltavelli. Tvö þeirra verða tekin í notkun í júní en hin tvö í haust. Þá standa líka yfir malbikunarframkvæmdir á flugbrautunum.

Gert er ráð fyrir að hátt í milljón farþegar fari í gegnum flugstöðina í hverjum mánuði næstu sex mánuði. Stækkunin á hinni þrjátíu ára Flugstöð Leifs Eiríkssonar mun því líklega strax hverfa í fjöldann eins og fyrri stækkanir.

Steinar Sigurðsson, hjá Teikn arkitektaþjónustu, hefur komið að öllum viðbyggingum …
Steinar Sigurðsson, hjá Teikn arkitektaþjónustu, hefur komið að öllum viðbyggingum og breytingum á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðriðinn alla viðbyggingarnar

Steinar Sigurðsson, arkitekt hjá Teikn arkitektaþjónustu, hefur komið að öllum viðbyggingum og breytingum á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Steinar, ásamt fleiri arkitektum og tveimur teiknistofum í Kaupmannahöfn, vann hönnunarsamkeppni um fyrstu viðbygginguna við flugstöðina árið 1999. Steinar varð staðararkitektinn. Síðan þá hefur hann meira og minna unnið að stækkun flugstöðvarinnar. „Þetta hefur verið stórkostleg reynsla og á tímabili hef ég ekki gert neitt annað en að vinna við þessa byggingu, í áraraðir. Ætli það sé ekki einfaldast að leita til okkar sem eru með þekkingu og reynsluna og öll gögnin þegar svona bútasaumur er í gangi,“ segir Steinar.

Spurður hvort hann hafi getað ímyndað sér í upphafi að hann yrði viðriðinn flugstöðina í svona langan tíma svarar Steinar neitandi. „Eftir fyrstu stækkunina sem var tekin í notkun 2001 hélt maður að það væri búið að stækka til góðrar framtíðar en sú var ekki raunin með aukinni farþegaumferð.“

Hann vonast til að það verði strax farið í að byggja meira við þegar sú bygging sem nú er í smíðum verður kláruð, þá sérstaklega að lokið verði við stækkun landgangsbyggingarinnar sem er mikill flöskuháls. Nú er verið að breikka 1/3 af landganginum en Steinar segir að í hans huga væri eðlilegast að halda áfram þeirri vinnu. Steinari finnst yfirleitt hafa tekist vel til við að byggja við upphaflegu bygginguna. „Hún var hönnuð þannig í upphafi að það virtust ekki vera neinir möguleikar á stækkunum og viðbyggingum. En ég held að það hafi tekist vel hjá öllum að skilgreina verkið og leysa það. Mér fyndist óeðlilegt ef það væri farið að byggja nýja flugstöð. Það er nóg landsvæði þarna og þessi staðsetning ætti að geta þjónað okkur til allrar framtíðar held ég,“ segir Steinar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert