Lítið eftirlit með erlendum fyrirtækjum

Erlendir ferðamenn við Strokk.
Erlendir ferðamenn við Strokk. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fulltrúar fjölda opinberra stofnana funduðu í gær um undirboð erlendra ferðaþjónustuaðila á íslenskum ferðaþjónustumarkaði. Það var Alþýðusamband Íslands sem átti frumkvæðið að fundinum en að sögn Halldórs Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóra ASÍ, var niðurstaðan sú að umrædd starfsemi „flýtur milli laga“ án eftirlits.

Nokkur þeirra ferðaþjónustufyrirtækja sem hafa skilað inn umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2018-2022, sem m.a. kveður á um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna, kvarta undan samkeppni við erlenda aðila sem virðast koma hingað með starfsmenn og bifreiðar en greiða ekki skatta hér né fara að íslenskum kjarasamningum.

Að sögn Halldórs kom málið inn á borð ASÍ fyrir rúmum mánuði.

„Þá er ég að vísa til erlendra rútufyrirtækja sem eru að koma hér með bíla og starfsmenn og undirbjóða á markaði á grundvelli, væntanlega, lágra launa og skattaundanskota,“ segir hann. „Þetta varð til þess að við óskuðum eftir því að þetta yrði tekið fyrir á vettvangi velferðarráðuneytisins í tengslum við vinnu sem við höfum verið að vinna varðandi endurskoðun á lögum um útsenda starfsmenn, eins og við köllum það, sem er núna komin í frumvarpsform og búið að dreifa á þinginu.“

Eftir nokkra bið var boðað til fundarins sem haldinn var í gær en áður sendi ASÍ frá sér minnisblað um vandamálið, a.m.k. það sem vitað er.

„Þetta minnisblað fjallar í raun um tvennt,“ útskýrir Halldór. „Það fjallar annars vegar um þetta fyrirbæri en það fjallar líka um annað fyrirbæri sem við höfum verið að rekast á í ferðaþjónustunni, þ.e. erlend ferðaþjónustufyrirtæki sem bjóða hópum og einstaklingum pakkaferðir til Íslands með farartækjum og leiðsögumönnum sem eru staðsett hér á landi en eru svo einhvern veginn hvergi til.“

Halldór nefnir sem dæmi fyrirtæki sem sækja farþega í Leifsstöð, fara 4-12 daga ferðir um landið og skila farþegunum síðan aftur út á flugvöll en eru þó hvergi skráð.

„Og þessi fyrirtæki eru líka að undirbjóða á markaði; á grundvelli þess að þau eru ekki að greiða skatta og skyldur og á grundvelli þess að þau eru hér með leiðsögumenn sem er fullyrt við okkur að séu á einum þriðja eða helmingi launa leiðsögumanna samkvæmt kjarasamningum.“

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og deildarstjóri félagsmáladeildar.
Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ og deildarstjóri félagsmáladeildar. mbl.is/Styrmir Kári

Óvíst um stöðu fyrirtækjanna gagnvart regluverkinu

Upplýsingarnar sem koma fram í minnisblaði ASÍ, sem ber yfirskriftina Brotastarfsemi í ferðaþjónustunni, ríma við það sem fram kemur í umsögnum ferðaþjónustufyrirtækjanna. Erlend fyrirtæki séu að bjóða íslenskum rútufyrirtækjum að leigja hópferðabifreiðar með ökumanni á um 500 evrur á dag. Þá er haft eftir erlendum ökumönnum að þeir séu að fá 4.000 til 5.000 krónur fyrir dagsverkið.

Ef marka má upplýsingar ASÍ er von á tugum erlendra hópferðabifreiða hingað til lands í sumar. Þá virðast mörg þeirra erlendu fyrirtækja sem hingað sækja vera óskráð hérlendis og sama á við um starfsmenn á þeirra vegum.

En eru þessi fyrirtæki að brjóta lög?

„Við höldum því fram að svo sé,“ svarar Halldór. „Við höldum því fram að í báðum tilfellum séu þessi fyrirtæki, hvort sem við erum að tala um þessi erlendu rútufyrirtæki sem eru að koma hingað með rútur og starfsmenn og bjóða þessa þjónustu íslenskum ferðaþjónustuaðilum og erlendum, eða þessa erlendu ferðaþjónustaðila sem hingað eru að koma og bjóða þessar ferðir til einstaklinga í útlöndum; að þessir aðilar eigi að skrá sig hér, greiða skatta og skyldur, og þeir séu að sjálfsögðu skuldbundnir til að greiða hér laun og tryggja að önnur starfsskilyrði séu í samræmi við íslenska kjarasamninga.“

Að sögn Halldórs kom hins vegar í ljós á fundinum í gær að starfsemin „flýtur á milli laga og það virðist nánast enginn vera að fylgjast með þessu.“ Á fundinum voru m.a. fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, Vinnumálastofnun, Vinnueftirlitinu, Ríkisskattstjóra, Samgöngustofu og Tollstjóraembættinu.

„Stjórnsýslustofnanir virðast ekkert hafa talað saman um þetta,“ segir Halldór um upplifun sína af fundinum. „Þær virðast hafa verið mjög lítið meðvitaðar um hvað þarna er í gangi og eru mjög óklárar á því hvort regluverkið nær yfir þetta eða ekki, og hvernig á að fylgja þessu eftir. Niðurstaðan var sú að það verður haldinn annar fundur eftir hálfan mánuð og þá ætla menn að vera búnir að undirbúa sig betur.“

Að sögn Halldórs stendur til að boða fulltrúa lögreglunnar og Ferðamálastofu á næsta fund.

Landmannalaugar.
Landmannalaugar. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert