Lítið um bein kaup heimilanna á hlutabréfamarkaði

Fjármagnstekjur,fjármagnstekjuskatturoghreineignfjölskyldnaeftirfjármagnstekjubilumárið2015.
Fjármagnstekjur,fjármagnstekjuskatturoghreineignfjölskyldnaeftirfjármagnstekjubilumárið2015. mbl.is/

Stærstur hluti fjölskyldna hér á landi er með litlar eða alls engar fjármagnstekjur. Rúmlega 39 þúsund fjölskyldur voru með minna en 1.000 kr. í fjármagnstekjur eða höfðu engar slíkar tekjur á árinu 2015.

Eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær voru flestar fjölskyldur eða um 151 þúsund með fjármagnstekjur á bilinu 1.000 kr til 500 þúsund kr.

Alls voru því rúmlega 90% íslenskra fjölskyldna með minna en hálfa milljón eða engar fjármagnstekjur á árinu 2015. Rúmlega 13 þúsund fjölskyldur eða 6,2% voru hins vegar með fjármagnstekjur yfir einni milljón.

Þessar upplýsingar koma fram í svari fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Vinstri grænna, og byggjast á álagningu opinberra gjalda í fyrra skv. skattframtölum.

Í minna mæli sem beinir fjárfestar en meira í gegnum sjóði

Litlar fjármagnstekjur sem þorri íslenskra heimila telur fram gætu bent til þess að traust einstaklinga á verðbréfamörkuðunum, ekki síst á hlutabréfamarkaðinum sé enn af skornum skammti eftir hrunið, þrátt fyrir stóraukinn kaupmátt að undanförnu og uppgang í efnahagslífinu.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir að lítið sé um beinar fjárfestingar almennings í hlutabréfum. „Við höfum séð að heimilin í landinu hafa í takmörkuðum mæli komið inn á markaðinn og nýtt sér hann sem beinir fjárfestar. Þeir hafa þó í meira mæli en áður gert það í gegnum sjóði en til þess að gera lítið sem beinir fjárfestar. Á fyrstu árum þessarar aldar var bein eignaraðild heimila á hlutabréfamarkaðinum í kringum 15% [af markaðinum] þegar hún var sem mest og fjöldi einstaklinga sem áttu í hlutafélögum var mun meiri en nú er, jafnvel yfir 20 þúsund eða hátt í 30 þúsund í einhverjum bankanna. Í dag er þetta töluvert annað, það þykir gott ef það eru kannski tvö til þrjú þúsund hluthafar og sumstaðar eru þeir enn færri,“ segir Páll.

„Við vildum gjarnan sjá að einstaklingar yrðu í meira mæli beinir þátttakendur en höfum líka bent á að það sé líka skynsamlegt fyrir einstaklinga að fjárfesta í gegnum sjóði til að dreifa áhættunni.“

Áhyggjuefni fyrir þjóðfélagið

„Það er ákveðið áhyggjuefni fyrir þjóðfélagið ef atvinnulífið og heimilin í landinu eru ekki tengd nánari böndum en nú er hvað þetta varðar,“ segir Páll ennfremur.

– Ber ennþá á vantrausti í garð fyrirtækja sem fjárfestingarkosts?

,,Já, ég tel að við þurfum að vera raunsæ hvað þetta varðar. Það er gamla sagan að traustið getur allt í einu horfið en það tekur mörg ár að koma til baka. Þetta verður að byggja upp hægt og bítandi en að því sögðu þá teljum við að það sé fullt efni til þess að heimilin gefi þessum möguleikum meiri gaum,“ segir hann.

Margt getur þó haft áhrif á hvernig heimilin haga sparnaði sínum og fjárfestingum. Páll bendir á að hlutabréfamarkaðurinn hefur verið að vaxa örugglega á undanförnum árum og er orðinn mun líflegri og vænlegri til viðskipta í dag en var fyrir nokkrum árum síðan. ,,Það hafa verið 13 nýskráningar frá 2011 og við sjáum að viðskiptin eru að vaxa mikið. Dagleg viðskipti á markaðinum eru orðin að jafnaði um þrír milljarðar það sem af er þessu ári,“ segir hann. ,,Svo gerum við ráð fyrir einhverjum nýskráningum á næstu mánuðum og áframhaldandi vexti. Allt stuðlar þetta að því að gera markaðinn áhugaverðari fyrir einstaklinga.“

Eignastaða heimilanna hefur batnað mikið að undanförnu og ýmsir aðrir möguleikar verið í boði en á verðbréfamarkaðinum. Páll bendir á að þróunin á húsnæðismarkaðinum hafi vafalaust líka haft áhrif þar sem hafa orðið miklar verðhækkanir sem kunnugt er. ,,Fjárfesting þar tekur meira í en hún gerði fyrir nokkrum árum og að einhverju leyti hefur það mögulega líka takmarkað aðrar fjárfestingar heimilanna,“ segir Páll.

1.717 fjölskyldur áttu hreina eign sem nam 326 milljörðum

Í sundurliðuðu svari fjármálaráðherra kemur fram að þær 11.623 fjölskyldur sem höfðu engar fjármagnstekjur á árinu 2015 greiddu alls um 4,7 milljarða í tekjuskatt á því ári og hrein eign þeirra var rúmlega 62 milljarðar kr.

Þær ríflega 190 þúsund fjölskyldur sem höfðu minna en hálfa milljón í fjármagnstekjur eða fengu engar fjármagnstekjur á árinu greiddu samtals 116 milljarða í tekjuskatt og hrein eign þessara fjölskyldna nam meira en 1.500 milljörðum kr.

1.717 fjölskyldur sem voru hins vegar með fjármagnstekjur yfir tíu milljónum, áttu tæplega 326 milljarða í hreina eign.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert