Prjónagjörningur hápunktur hátíðarhaldanna

Jóhanna fyrir framan refilinn með Vatnsdælasögu í Textílsetrinu.
Jóhanna fyrir framan refilinn með Vatnsdælasögu í Textílsetrinu. Ljósmynd/Cornelia Theimer Cardella

Á Prjónagleðinni 2017 á Blönduósi verður meira en bara slétt og brugðið, fyrst á réttunni, svo á röngunni, tjú, tjú og trallalla. Textílsetur Íslands hefur fengið ástríðuprjónara, prjónahönnuði og alls konar listafólk héðan og þaðan til að fitja upp á margvíslegum prjónatengdum skemmtilegheitum aðra helgina í júní.

Vattarsaumur og vefprjón, klukkur, kantar, kaðlar og fléttur, hjaltneskt sjöl og íslenskar lopapeysur. Allt þetta og miklu meira verður annaðhvort kennt á námskeiðum eða fjallað um það í fyrirlestrum á Prjónagleðinni 2017 á Blönduósi. Ullardraumar, jurtalitun og prjónagjörningur koma líka við sögu.
Tilbrigði við stef, nálabinding (vattarsaumur) eftir Reyni Katrínarson.
Tilbrigði við stef, nálabinding (vattarsaumur) eftir Reyni Katrínarson.


Textílsetur Íslands stendur annað árið í röð fyrir prjónagleði á Blönduósi, sem að þessu sinni verður haldin helgina 9.-11. júní. Hugmyndina átti Jóhanna E. Pálmadóttir, forstöðumaður setursins, sauðfjárbóndi og handavinnukennari. Hún vonast til að þátttakendur verði a.m.k. jafnmargir og í fyrra, eða um 300 manns, og hvetur alla, konur og karla, óvana sem þrælvana prjónara til að skrá sig á viðburði á vefsíðunni www.prjonagledi.is fyrir 26. maí.

„Ef ekki fæst næg þátttaka neyðumst við til að aflýsa einstaka námskeiði eða fyrirlestri,“ útskýrir hún, en hefur þó ekki þungar áhyggjur. Þegar hafa nokkrir tugir skráð sig til leiks, hvaðanæva af landinu og meira að segja frá útlöndum.

Textíllistakonan Kerstin Lindström stendur fyrir prjónagjörningi.
Textíllistakonan Kerstin Lindström stendur fyrir prjónagjörningi.


„Markmið hátíðarinnar er að sameina reynda kennara og áhugasama íslenska og erlenda prjónara, miðla reynslu og þekkingu og síðast en ekki síst að hafa gaman af,“ heldur hún áfram. Sjálf skemmti hún sér konunglega bæði á Prjónagleðinni 2016 og í hittifyrra á tíundu prjónahátíðinni á Fanø, lítilli danskri eyju, ásamt hátt í þrettán þúsund manns.

Skapandi listform

„Textílsetrið fékk styrk frá Nordplus til að við gætum kynnt okkur fyrirkomulagið og ráðfært okkur við skipuleggjendur. Eins og á Fanø hafa prjónahátíðir alls staðar í heiminum notið vaxandi vinsælda.“ Jóhanna býst við að sama verði upp á teningnum hér á landi og Prjónagleðin á Blönduósi verði árlegur viðburður héðan í frá. Enda hafi áhugi á prjónaskap aukist umtalsvert á liðnum árum, sérstaklega hafi landinn í auknum mæli tekið upp prjónana strax eftir hrun. „Mörgum finnst núorðið eðlilegra að prjóna og líta ekki lengur á prjónaskap sem þvingaða nauðsyn heldur skapandi listform.“

Tilbrigði við stef eftir Kristínu Gunnarsdóttur.
Tilbrigði við stef eftir Kristínu Gunnarsdóttur.


Og Jóhanna veit alveg hvað hún syngur. Auk þess að veita Textílsetrinu forstöðu og eiga náið samstarf við Þekkingarsetrið um að efla textíl og textílvitund á landinu, hefur hún kennt handavinnu í Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri í hartnær þrjátíu ár. „Nemendur eru af báðum kynjum og allir jafnáhugasamir um prjónaskap. Sauðfjárbændur þurfa enda að læra að meta ullina, skilja hvernig á að meðhöndla hana til að auka gæðin og búa til gott hráefni til að vinna úr í band – og flík,“ segir hún.

Allt til alls fyrir prjónara

Á hátíðinni verður boðið upp á sextán námskeið af ýmsu tagi og fyrirlestra sem tengjast prjóni með einum eða öðrum hætti. Einnig verður gnótt sölubása með garn og önnur þarfaþing fyrir prjónara. Að sögn Jóhönnu voru gestir með stjörnur í augunum af hrifningu yfir öllu úrvalinu í fyrra. Leiðbeinendur og fyrirlesarar eru m.a. textílkennari, prjónahönnuðir, myndlistarmaður, handavinnukennari og spunakona frá Hjaltlandseyjum. Allt saman ástríðufólk um textíl og prjónaskap.

Á Prjónagleðinni 2017 verða haldin 16 námskeið og fjöldi fyrirlestra …
Á Prjónagleðinni 2017 verða haldin 16 námskeið og fjöldi fyrirlestra um flest viðvíkjandi prjónaskap.


„Hápunktur Prjónagleðinnar verður prjónagjörningur sem sænska textíllistakonan Kerstin Lindström stendur fyrir síðdegis á laugardeginum í Íþróttamiðstöðinni. Hún ferðast um heiminn með gjörninginn, sem hún kallar On your own Time. Þátttakendur eiga að vera 82, sitja í hring og prjóna úr garni, sem Ístex gefur, í nákvæmlega klukkustund. Engu skiptir þótt þeir prjóni ekki hratt því enginn prjónar hraðar en sá sem prjónar hægast,“ segir Jóhanna sposk – og djúp.

Tölvuvefstóll og Hjaltlendingar

Gestum á fyrirlestri um sögu Kvennaskólans á Blönduósi gefst svo kostur á að skoða sig um í Textílsetrinu, Listamiðstöðinni og Þekkingarsetrinu í húsinu þar sem skólinn var starfræktur frá 1912 og þar til hann var aflagður 1978. „Þeim verður boðið að skoða eina tölvuvefstól landsins, sem Þekkingarsetrið festi nýverið kaup á til afnota fyrir hönnuði, einstaklinga og skóla. Algjört undratæki og kemur að góðum notum til dæmis við að búa til frumgerðir, sem síðan fara í fjöldaframleiðslu,“ segir Jóhanna.

Tilbrigði við stef eftir Anne Eunson.
Tilbrigði við stef eftir Anne Eunson.


Að þessu sögðu er hún spurð hvort Blönduósingar séu í fararbroddi í prjónaskap og textíl. „Hér hefur verið rík hefð fyrir hvoru tveggja allt frá því Kvennaskólinn var stofnaður 1879. Heimilisiðnaðarsafnið, perla bæjarins, var opnað 1976 og Textílsetrið 2005. Hér er líka þvottastöð Ístex þar sem öll ull landsins er þvegin. Við höfum stefnt að því að efla textíl með öllum ráðum og prjónahátíðin er liður í þeirri viðleitni. Ýmis verkefni eru í gangi, til dæmis er Ragnheiður Björk Þórsdóttir, veflistakona og textílkennari, að rannsaka og greina öll mynstur, um 1.500 talsins, sem Textílsetrinu hafa áskotnast gegnum tíðina, og setja þau í stafrænan gagnagrunn,“ svarar Jóhanna og nefnir aukinheldur refil með sögu Vatnsdæla, sem hafist var handa við fyrir sjö árum og almenningur er enn að taka sporin í. Og margt fleira.

En aftur að Prjónagleðinni 2017. Þeir sem rýna í dagskrána sjá að Hjaltlandseyjar eiga þar töluvert upp á pallborðið. Hjaltlendingurinn Anne Eunson verður með þrjú mismunandi námskeið í hjaltnesku prjóni. „Eunson kom líka á hátíðina í fyrra og hafði gríðarlegt aðdráttarafl. Prjónið er Hjaltlendingum í blóð borið, þeir eiga sér langa prjónahefð, læra ungir að prjóna og búa til svakalega flóknar uppskriftir að fögrum sjölum og flíkum. Þeir eru alltaf með eitthvað fallegt á prjónunum.“

Prjónakonur á prjónagöngu.
Prjónakonur á prjónagöngu.


Þar sem yfirskriftir sumra námskeiðanna á prjónagleðinni eru svolítið framandlegar er Jóhanna í lokin spurð hvað vattarsaumur sé, en Reynir Katrínarson myndlistarmaður er leiðbeinandi á námskeiðinu. „Vattarsaumur er fyrirrennari prjónsins, notuð er stór nál og flíkin eiginlega bara saumuð saman með hnútum. Lykkjur eru búnar til í höndunum og bandið dregið í gegnum þær til þess að mynda nýjar lykkjur,“ segir hún.

Prjónagleðin 2017 verður haldin í Félagsheimilinu á Blönduósi og Blönduskóla. Prjónagjörningur og sölubásar í Íþróttamiðstöðinni. Nánari upplýsingar og skráning: www.prjonagledi.is.
Tilbrigði við stef Auði B. Skúladóttur.
Tilbrigði við stef Auði B. Skúladóttur.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert