Rannsaka gjaldeyriseftirlitið á ný

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að málið hafi verið í …
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að málið hafi verið í bið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ætlar að hefja á ný rannsókn á gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands eftir að hlé hafði verið gert á rannsókninni. Bankaráð Seðlabanka Íslands hóf eigin rannsókn með aðstoð lagastofunnar Háskóla Íslands og málið er nú komið aftur til stjórnskipunarnefndar.

Greint var frá málinu í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins.

Þetta var hjá okkur en við ákváðum að setja þetta aðeins á ís þar til bankaráð kláraði sína skoðun. Þegar álit lagastofnunnar var birt var löngu ákveðið að skoða málið aftur út frá því,“ segir Brynjar Níelsson, formaður nefndarinnar, í samtali við mbl.is.

Það var ákveðið í morgun að halda áfram þar sem frá var horfið. Þetta var viðbót sem er komin og nú teljum við að það sé hægt að ljúka málinu einhvern tímann á þessu ári,“ bætir Brynjar við.

Bankaráð og lagastofnun komust að þeirri niðurstöðu að þótt reglur hefðu orðið skýrari hefði framkvæmd Seðlabanka verið ógagnsæ og breytt framkvæmd ekki birt.

Samherjadómur hluti af gögnum

Brynjar segir að Samherjadómurinn svokallaði verði ekkert sérstaklega ræddur innan nefndarinnar. „Hann er hluti af gögnum í málinu. Við erum að fara yfir stjórnsýsluna sem hluti af eftirliti yfir henni og það hefur komið gagnrýni á hana.“ Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í vikunni úr gildi 15 millj­óna króna stjórn­valds­sekt sem Seðlabanki Íslands lagði á Samherja fyr­ir brot á gjald­eyr­is­lög­um.

Við erum að leggja sjálfstætt mat á það hvernig það hefur farnast hjá gjaldeyriseftirlitinu, með hliðsjón af þeim gögnum sem liggja fyrir. Starfsmenn Seðlabanka komu fyrir nefndina í fyrra og við erum að draga saman gögnin og reyna að komast að niðurstöðu sem við sendum frá okkur,“ segir Brynjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert