Sæti áfram gæsluvarðhaldi fyrir misþyrmingar

Brot mannsins geta varðað allt að 16 ára fangelsi og …
Brot mannsins geta varðað allt að 16 ára fangelsi og er honum gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til Hæstiréttur hefur dæmt í máli hans. mbl.is/Golli

Hæstiréttur staðfesti dag áframhaldandi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir karlmanni sem ákærður var í mars í fyrra fyr­ir frels­is­svipt­ingu, lík­ams­árás, hót­an­ir, kyn­ferðis­brot og stór­felld­ar ærumeiðing­ar gegn sam­býl­is­konu sinni. Maðurinn var einnig tal­inn hafa reynt að hafa áhrif á framb­urð kon­unn­ar.

Maður­inn var í júní í fyrra dæmd­ur í tveggja og hálfs árs fang­elsi í héraðsdómi, en mál­inu var svo áfrýjað af hálfu ákæru­valds­ins og var það flutt í Hæsta­rétti og er nú beðið dóms. Brotin sem maður­inn hef­ur nú verið sak­felld­ur fyr­ir geta varðað allt að 16 ára fang­elsi.

Héraðsdómur úrskurðaði fyrr í mánuðinum að manninum yrði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan mál hans er til meðferðar fyrir Hæstarétti Íslands, en þó eigi lengur en til 17. júlí.

Sló hnefahöggum og hótaði lífláti

Í ákæru gegn manninum kem­ur fram að hann hafi svipt sam­býl­is­konu sína frelsi í fjór­ar klukku­stund­ir á heim­ili þeirra og ít­rekað veist að henni, slegið hana hnefa­högg­um og rifið í hár henn­ar. Þá hafi hann skipað kon­unni að setj­ast á stól en svo sparkað hon­um und­an henni svo hún féll á gólfið.

Meðan á þessu stóð er maður­inn sagður hafa hótað kon­unni ít­rekað líf­láti og meinað út­göngu af heim­il­inu.

Maður­inn á einnig að hafa tekið mynd­ir af kyn­fær­um konunn­ar og áreitt hana kyn­ferðis­lega, auk þess sem hann þvingaði hana bæði til munn­maka og endaþarms­maka.

Við rann­sókn máls­ins kom enn fremur fram að maður­inn og faðir hans reyndu ít­rekað að hafa áhrif á framb­urð kon­unn­ar með því að setja sig í sam­band við hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert