Útsvarinu verði skipt

Þó ferðaþjónustan vaxi renna útsvarstekjurnar annað.
Þó ferðaþjónustan vaxi renna útsvarstekjurnar annað. mbl.is/Ómar Óskarsson

Til álita kemur að móta tillögur um skiptingu útsvars milli sveitarfélaga þegar einstaklingur vinnur í öðru sveitarfélagi en þar sem hann á lögheimili. Þetta kemur fram í umsögn Byggðastofnunar við þingsályktunartillögu nokkurra þingmanna um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga.

Í þingsályktunartillögunni sem Þórunn Egilsdóttir, Framsóknarflokki, er fyrsti flutningsmaður að, er lagt til að skipaður verði starfshópur sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga. Kannað verði hvort einstaklingar ættu að greiða hluta útsvars til sveitarfélags þar sem þeir eiga frístundahús eða jörð, þó þeir eigi lögheimili í öðru sveitarfélagi, sem fær allar tekjur af útsvari hans í dag.

Byggðastofnun vill að verkefni hópsins verði víðtækara og hann skoði einnig tilvik þar sem einstaklingur flytur lögheimili en samkvæmt núgildandi reglum fellur allt útsvar á flutningsárinu til annars sveitarfélagsins en skiptist ekki milli sveitarfélaganna fyrir og eftir flutning. Þá kemur eins og fyrr segir einnig til álita að mati Byggðastofnunar að mótaðar verði tillögur um skiptingu útsvarsins ef einstaklingur

vinnur í öðru sveitarfélagi en þar sem hann á lögheimili.

Íbúafjöldinn tvöfaldast en sveitarfélagið fær ekki útsvar

Guðmundur Guðmundsson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, segir að vaxandi krafa sé um að hægt verði að greiða hluta af útsvarstekjum til sveitarfélags þar sem fólk á frístundahús eða jörð.

Hann segir einnig að hugmyndir um að skipta útsvarinu ef einstaklingar vinna í öðru sveitarfélagi en þar sem þeir eiga lögheimili hafi verið bornar upp við starfsmenn hjá Byggðastofnun.

,,Ef þú vinnur í einu sveitarfélagi en átt lögheimili í öðru þá fær sveitarfélagið þar sem þú átt lögheimili allt útsvarið. Þetta er farið að vigta töluvert þungt í ferðaþjónustunni. Það eru til sveitarfélög þar sem íbúafjöldinn tvöfaldast yfir sumartímann en þau fá engar útsvarstekjur af þeim íbúum. Þetta er farið að vega þyngra eftir því sem ferðaþjónustan verður viðameiri og er um umtalsverðar upphæðir að ræða,“ segir hann.

Starfshópur móti tillögur

Guðmundur segir að vaxandi umræða sé um þessar hugmyndir enda skipti þetta orðið miklu máli í mörgum litlum sveitarfélögum eins og í Vík í Mýrdal þar sem á sér stað mikil íbúaaukning yfir sumartímann og í Mývatnssveit, svo dæmi séu nefnd.

„Ég held að það sé full ástæða til að setja upp starfshóp til að skoða þetta,“ segir Guðmundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert