Allt að 158% verðmunur

Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu …
Kannað var verð á þjónustu við dekkjaskiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu á álfelgum og stálfelgum af stærðum 14“,15“, 16“ og 18´ á 26 hjólbarðaverkstæðum í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Ísafirði, Akureyri, Borgarnesi og Akranesi. mbl.is/Árni Sæberg

Allt að 158% verðmunur getur verið á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa af stærri gerðinni með dekkjastærð 265/60R18. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði á dekkjaverkstæðum víðsvegar um landið þann 26. apríl sl.

Hjólbarðaverkstæði Kaldasels, Dekkjahöllin, Gúmmívinnustofan SP dekk, N1, Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs, Barðinn, Kraftbílar og Hjólbarða og smurþjónustan Klöpp neituðu að upplýsa fulltrúa verðlagseftirlitsins um verð á þeirri þjónustu sem þeir selja neytendum, að því er fram kemur á vef ASÍ.

„Fulltrúum verðlagseftirlitsins var hins vegar vel tekið hjá flestum dekkjaverkstæðum og hvetur verðlagseftirlitið neytendur til að beina viðskiptum sínum til þeirra aðila sem virða sjálfsögð réttindi neytenda á samkeppnismarkaði til að fá verðupplýsingar og gera verðsamanburð,“ segir ASÍ.

Fram kemur, að verðlagseftirlitið hafi skoðað verð á þjónustu við skiptingu, umfelgun og jafnvægisstillingu dekkja á ákveðnum dekkjastærðum fyrir nokkrar tegundir bíla. Titancar var í öllum tilfellum með lægsta verðið í könnuninni en Höldur með hæsta verð í flestum tilfellum.

Munurinn á lægsta og hæsta verði var mestur á þjónustu við dekkjaskipti á jeppa af stærri gerðinni (t.d. Mitshubishi Pajero instyle dekkjastærð 265/60R18) sem var ódýrust á  6.000 kr hjá Titancar en dýrust 15.497 kr. hjá Höldur sem gerir 158% verðmun.

Allt að 81% verðmunur var á dekkjaskiptum á smábílum (t.d. Toyota Yaris Terra), minni meðalbíl (t.d. Ford Focus Trend) og meðalbíl (t.d. Subaru Legacy station) með 14“ – 16“ stálfelgur. Lægsta verðið fyrir þessa þjónustu var 5.000 kr hjá Titancar og hæsta verðið 9.045 kr hjá Höldur með. Titancar var einnig með lægsta verðið fyrir dekkjaskipti á dekkjum sömu stærðar á álfelgum eða 5.000 kr en  Max1 með hæsta verðið, 9.121 kr sem er 82% verðmunur.

Nánar á vef ASÍ.

.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert