Dæmdur fyrir að áreita 15 ára stúlku

Tuttugu og tveggja ára gamall karlmaður var í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðabundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur og til þess að greiða unglingsstúlku 500 þúsund krónur í miskabætur fyrir að hafa beitt hana kynferðislegu áreiti. Káfaði hann á henni og sendi henni kynferðisleg skilaboð í gegnum forriti Snapchat vorið 2015. Hann var þá tvítugur en stúlkan 15 ára.

Fjallað er um dóminn á fréttavefnum Vísir.is en þar segir að maðurinn hafi leikið knattspyrnu og þjálfað fyrir íþróttafélag á höfuðborgarsvæðinum þegar hann braut gegn stúlkunni. Hafi hann ennfremur verið starfsmaður íþróttahúss félagsins. Fram kemur ennfremur í dómnum að hann hafi ekki þjálfað stúlkuna og að þau hafi ekkert þekkst.

Sömuleiðis kemur fram að maðurinn hafi káfað á rassi stúlkunnar, ítrekað beðið hana um að stunda kynlíf með sér í gegnum skilaboð, óskað eftir að hún sendi honum myndir af sér léttklæddri, rætt um eigið kynlíf og að minnsta kosti einu sinni sent henni myndir af kynfærum sínum. Ein skilaboðin fólu í sér viðurkenningu á að hafa snert rass stúlkunnar viljandi.

Maðurinn neitaði þó fyrir dómi að hafa í raun snert hana. Einungis hafi verið um að ræða leið til þess að hefja samræður við hana. Hann vildi meina að stúlkan hafi tekið vel í skilaboð hans en hún þvertók fyrir það. Dómurinn segir ekkert í samskiptum þeirra benda til þess að stúlkan hafi verið jákvæð fyrir samskiptunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert