„Ég sit hérna bara og nötra“

Ljósmynd/Margrét Eiríksdóttir

„Þetta var virkilega óþægilegt,“ segir Margrét Eiríksdóttir í samtali við mbl.is en hún er farþegi í flugvél Primera Air sem lenti á Keflavíkurflugvelli um klukkan fimm í dag. Flugvélin lenti í ókyrrð í lendingu og hafnað að lokum út af flugbrautinni við enda hennar.

„Við vissum að það var eitthvað ekki alveg eins og það ætti að vera því flugvélin var mjög lengi að reyna að lækka flugið. Við lentum í ókyrrð en síðan hélt þetta aðflug eiginlega endalaust áfram. Þegar vélin komst síðan loks niður á flugbrautina þá var hemlunarbúnaðurinn í botni og síðan bara skreið flugvélin út fyrir brautarendann,“ segir Margrét.

„Flugvélin bara stendur þar núna og við fraþegarnir bíðum eftir að verða sótt af rútum. En það eru allir heilir. Ég sit hérna bara og nötra,“ segir Margrét ennfremur. Spurð hvort farþegarnir hafi fengið einhverja áfallahjálp eða slíkt segir hún að það hafi strax verið greint frá því hvað hefði gerst og síðan hefði fólk fengið fyrirmæli um að halda kyrru fyrir.

„Fólki var sagt að sitja kyrrt og vera ekkert að fara neitt. En eins og ég segi þá eru allir heilir og það gerðist ekkert annað en þetta. Það varð náttúrulega ákveðin skelfing þegar vélin fór bara að skríða á skjön,“ segir Margrét. Mikil snjókoma er á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert