Leikurinn er lífsstíll

Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson í leik …
Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson og Jón Guðmundsson í leik fyrir tveimur árum. mbl.is/Golli

Rögnvaldur Hreiðarsson er reyndasti körfuboltadómari landsins. Hann hefur dæmt 1.797 leiki á um 22 árum fyrir Körfuknattleikssamband Íslands, auk verkefna erlendis, æfingaleikja og annarra leikja, en Jón Otti Ólafsson, sem hætti að dæma 1994, dæmdi 1.673 leiki.

Leikmenn eru gjarnan fengnir til þess að dæma leiki í yngri flokkum. „Þegar ég æfði körfubolta með Val voru allir skikkaðir til þess að dæma í fjölliðamótum og það var ást við fyrstu sýn,“ segir Rögnvaldur um dómgæsluna. „Ég gat ekkert í körfubolta, byrjaði seint að æfa og á aðeins skráðan einn leik í úrvalsdeild, en kom ekkert inná. Þess vegna gerðist ég dómari, þegar ég var þrítugur, og þá varð ekki aftur snúið.“

Fyrst og fremst gaman

Rögnvaldur segir erfitt að útskýra hvað haldi honum við efnið. Hann bendir á að dómarar séu íþróttamenn og þeir hagi sér eins og íþróttamenn. „Þetta er fyrst og fremst gaman en maður vill alltaf bæta sig, fá fleiri og betri leiki,“ segir hann. „Þetta er stöðug keppni með gleði og sorgum. Stundum er dómgæslan erfið og það þarf þrautseigju til þess að halda áfram, sama hvað á gengur.“ Hann bætir við að dómarar viti það best sjálfir þegar þeir gera mistök og það sé erfitt að fara með þau heim á bakinu. „Það er jafn erfitt fyrir okkur og aðra þátttakendur í leiknum.“

Körfuboltafjölskyldan er stór og Rögnvaldur segir ánægjulegt að tilheyra henni, en auk þess að dæma hefur hann sinnt ýmsum öðrum störfum fyrir hreyfinguna, til dæmis verið í stjórn körfuknattleiksdeildar Vals um árabil og dómaranefnd KKÍ í 10 ár. „Dómarastarfið er ekki bara það að dæma og fara síðan heim að sofa heldur er þetta lífsstíll.“

Rögnvaldur er rakari á Rakarastofunni á Hótel Sögu en var lengi með eigin stofu. Hann segir að vel hafi gengið að samhæfa áhugamálið, vinnu og heimilislíf. „Körfuboltinn er hluti af lífinu og ég hef aldrei litið á dómgæsluna sem fórn, þó þetta sé tímafrekt. Ég elska iþróttina og èg finn alltaf fiðringinn, jákvæðu spennuna, sem þarf að vera til staðar. Auk þess hefur verið frábær fèlagsskapur og vinátta innan dómarahópsins frá fyrsta degi.“

Leikirnir eru margir, þar af 539 í efstu deild karla, 140 í úrslitakeppninni og 230 í efstu deild kvenna, og Rögnvaldur segir erfitt að benda á eftirminnilegasta leikinn. „Fyrstu stóru leikirnir eru auðvitað eftirminnilegir og ég gleymi aldrei fjórframlengdum leik hjá Keflavík og Grindavík í úrslitakeppninni föstudaginn langa 2009. Annars er það yfirleitt síðasti leikur sem stendur upp úr.“

Oft er talað um að dómgæslan sé vanþakklátt starf. Rögnvaldur segir að dómarar hafi reynt að breyta hugsunarhættinum og bent á að það sé ekki síður vanþakklátt starf að vera leikmaður eða stjórnarmaður. „Það er krefjandi að vera í íþróttum og dómarastarfið er fyrst og fremst krefjandi,“ segir hann. „Við kveinkum okkur ekki undan gagnrýni. Krafan um að dómarar geri ekki mistök er alltaf til staðar og það breytist aldrei. Dómarar eiga ekki að gera mistök en hinn fullkomni leikur hefur aldrei verið dæmdur og það mun aldrei gerast.“

Að dæma í efstu deild í 22 ár er langur tími. Rögnvaldur segir að enginn endist svona lengi nema að hafa metnað fyrir starfinu, hvort sem er í úrslitakeppni hjá yngstu iðkendunum eða þeim bestu. „Við störfum í góðu umhverfi og virðing er borin fyrir dómurum í körfubolta. Við finnum fyrir því og sú virðing er gagnkvæm.“

Rögnvaldur segir að ástríðan fyrir dómgæslunni sé jafnmikil nú og þegar hann byrjaði 1995. „Ég er í góðu formi og mér hefur verið treyst fyrir mikilvægum verkefnum. Ég verð 53 ára í sumar og held áfram að dæma eins lengi og mér er treyst fyrir því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert